144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

niðurstaða skýrslu um endurreisn bankanna.

[15:15]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Eins og ég tók fram í fyrra svari er ég ekki að fullyrða að lög hafi verið brotin. Ég er að fullyrða að menn hafi tekið rangar og skaðlegar pólitískar ákvarðanir. Rétt eins og við framsóknarmenn bentum á það þá þegar í upphafi árs 2009 að til staðar væru tækifæri sem stjórnvöld væru ekki að nýta og ef þau nýttu tækifærin ekki þá væru þau að kasta miklum verðmætum á glæ, verðmætum sem gætu nýst og ættu að nýtast með réttu til að koma til móts við almenning í landinu, skuldara sem horfa nú upp á það að skuldir þeirra voru færðar til nýju bankanna með verulegum afslætti, tugprósenta afslætti, eins og nú hefur verið staðfest, en þeim í engu leyft að njóta góðs af því.

Það er mjög sérkennilegt í þessu máli öllu að nú liggur fyrir staðfest að menn hafi gripið þarna inn í einhverja niðurstöðu sem virtist vera fyrirliggjandi af hálfu Fjármálaeftirlitsins í febrúar 2009. Af hverju er þetta sérkennilegt? Af ýmsum ástæðum, jú, en sérstaklega vegna þess að rétt fyrir kosningar, raunar kvöldið fyrir kosningar, árið 2009 kannaðist þáverandi fjármálaráðherra (Forseti hringir.) ekki við að fyrir lægi það verðmat sem spurt var um.