144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

glufur í skattalögum.

[15:16]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. forsætisráðherra sem leiðtoga ríkisstjórnarinnar vegna þeirrar umræðu sem orðið hefur í samfélaginu að undanförnu um skattstefnu og skattrannsóknir. Við höfum talsvert rætt um kaup á gögnum, í gær var fjallað um glufur í skattalöggjöfinni. Mig langar að beina spurningu til hæstv. forsætisráðherra í ljósi þess að hér er um að ræða stórt réttlætismál. Við búum í samfélagi þar sem almenningur greiðir sína skatta og skyldur, þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki gera það líka en svo virðist vera sem einhverjir nýti sér glufur í skattalöggjöf til að leggja minna til samfélagsins sem er samt okkar sameiginlega verkefni að byggja upp.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra sérstaklega um það að á síðasta þingi var frumvarpi vísað til ríkisstjórnarinnar af hv. efnahags- og viðskiptanefnd, frumvarpi sem ég lagði fram um svokallaða þunna eiginfjármögnun sem snýst um það að félög sem eru með svokallaða þunna eiginfjármögnun, eru hátt skuldsett og hátt hlutfall af heildarfjármögnun þeirra kemur frá tengdum aðilum — þá snýst það um að þau vísa arðinum til að greiða lán til móðurfélaga sem eru staðsett í öðrum löndum þar sem skatthlutföll eru hagstæðari. Þetta er eitthvað sem mörg ríki heims hafa verið að taka á, OECD hefur bent á að þarna þurfi ríki heimsins að samræma löggjöf sína. Hið sama hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gert hér á landi. Þetta frumvarp lagði ég fram og hv. efnahags- og viðskiptanefnd skrifaði öll undir að þetta væri mjög mikilvægt og jákvætt markmið, þetta frumvarp þyrfti að verða að lögum og helst á haustþingi 2014 en einhver lagatæknileg atriði þyrfti að kanna af hálfu stjórnsýslunnar áður en það gæti orðið.

Nú rek ég augun í að þetta mál er hvergi á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar þó að málinu hafi verið vísað til hæstv. ríkisstjórnar. Mig langar því að spyrja hæstv. forsætisráðherra sem verkstjóra ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) hvort hann telji ekki rétt að þessu máli verði lokið og það lagt fram hér á þessu þingi.