144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

glufur í skattalögum.

[15:21]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Svo að ég þýði svar hæstv. forsætisráðherra með mildum hætti þá vil ég skilja það sem svo að hann sé sammála því að það sé mjög mikilvægt að stoppa í þessar glufur, að það sé mjög mikilvægt að stoppa í þær glufur sem eru á skattkerfinu okkar sem gera að verkum að fyrirtæki geti með þessum hætti fært hagnað yfir til þess að greiða lán frá tengdum félögum sem er auðvitað bara ein aðferð til að koma honum úr landi.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra — hann sagði að hann vildi ekki tjá sig um einstök mál en samt sem áður gerði hann það í raun með því að segja að mikilvægt væri að tryggja þannig skattalaust umhverfi fyrir erlenda fjárfestingu að hagnaður skilaði sér til samfélagsins — hvað honum þyki þá um að þetta mál virðist vera fast uppi í fjármálaráðuneyti. Athygli mín var vakin hér á milli fyrirspurna og svarað með fyrirvara um að ekki sé von á þessu fyrr en í fyrsta lagi næsta vetur; ég spyr í ljósi þess að ég hef talað um að hér ætti að ríkja þverpólitísk sátt um að það væri forgangsatriði að búa okkar skattkerfi (Forseti hringir.) þannig úr garði að þar leggi allir af mörkum og þar sé stoppað í glufur.