144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

rannsókn á endurreisn bankanna.

[15:26]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér er að mestu leyti um að ræða fyrirspurn sem ég svaraði áðan og þess vegna verður hv. þingmaður að láta sér að mestu leyti sama svar duga.

Hv. þm. Brynjar Níelsson tók fram að hann teldi tilefni til að rannsaka þessi mál áfram þótt hann teldi að samkvæmt eigin skoðun hefðu lög ekki verið brotin. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, að mínu mati hefur þetta mál ekki snúist fyrst og fremst um það heldur þær pólitísku ákvarðanir sem voru teknar á sínum tíma sem leiddu til þess að það svigrúm sem varð til að koma til móts við íslenskan almenning, með því að færa niður skuldir fólks eða íslensk fyrirtæki til að rétta stöðu þeirra, var ekki nýtt. Það hefur nú skilað sér í uppsöfnuðum tæplega 300 milljarða kr. hagnaði nýju bankanna frá því að þessar ákvarðanir voru teknar. Hvernig varð þessi hagnaður upp á 300 milljarða kr. til? Að langmestu leyti að því er virðist, þó að ástæða sé til að skoða það í samhengi við þetta, með því að uppfæra mat á eignum sem höfðu verið færðar yfir í nýju bankana með verulegum afslætti rétt eins og við framsóknarmenn bentum á þegar í byrjun árs 2009 þegar tækifæri var til, og ekki bara tækifæri eins og ég nefndi áðan heldur nauðsyn, fullkomlega réttlætanleg nauðsyn, á að leyfa almenningi í einhverju að njóta þeirra afskrifta sem farið höfðu fram á skuldum almennings á Íslandi.

Ég tek undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni um að það sé svo sannarlega tilefni til að skoða þetta mál áfram. Ég tek líka undir varfærni hv. þm. Brynjars Níelssonar varðandi fullyrðingar um lögbrot þó að lögmenn virðist greina á um það miðað við það sem hefur mátt lesa í fjölmiðlum og vefmiðlum. Pólitísku ákvarðanirnar og afleiðingar þeirra þegar menn máttu vita betur eru svo sannarlega eitthvað sem gefur tilefni til frekari athugunar.