144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

útreikningur skuldaleiðréttingar og frestun nauðungarsölu.

[15:32]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt sem hann segir, það hefur tekið lengri tíma en menn áttu von á að reikna þessa hluti út. Það er líka þannig að þeir sem hafa hlotið útreikning hafa ákveðinn umþóttunartíma til að fara yfir hann og síðan kemur líka til þess að menn geti kært niðurstöðuna svo allt þetta tekur tíma. Það má segja að þetta hafi tekið lengri tíma en við gerðum ráð fyrir, ég tek undir það með hv. þingmanni, og nú er tíminn auðvitað knappur. Við erum komin inn í febrúar og 1. mars er handan við hornið. Þetta er eitt af því sem ég er að skoða þessa dagana, gera mér grein fyrir því hversu mikið umfangið er og hversu margir það eru sem eru nákvæmlega í þessari stöðu eða hversu líklegt það er að þetta náist á þeim tiltekna tíma sem eftir er. Það er nokkuð sem við erum að fara yfir í ráðuneytinu þessa dagana. Ef til þess kæmi að við þyrftum að grípa inn í málið mundum við gera það hratt, þetta er einföld lagasetning og ég geri ráð fyrir því að því yrði vel tekið í þinginu ef á þyrfti að halda. Ég er ekki komin að neinni niðurstöðu með það enn þá, þetta er enn á því stigi að við erum að gera okkur grein fyrir því hvernig málið stendur.