144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

stjórnarstefnan.

[15:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir kosningar sagði hæstv. ráðherra mikilvægt að auka hagvöxt, lækka vexti, ná hundruðum milljarða af erlendum kröfuhöfum og losa gjaldeyrishöftin. Nú er kjörtímabilið hálfnað og hagvöxtur hefur minnkað, raunstýrivextir eru hærri en nokkru sinni frá hruni, enginn árangur hefur náðst í viðureigninni við kröfuhafana og gjaldeyrishöftin eru jafn klossföst og þau voru við kosningar. Þess vegna er óhjákvæmilegt að spyrja hæstv. forsætisráðherra um skýringar á þessu árangursleysi ríkisstjórnarinnar í öllum helstu málum í efnahagslífi þjóðarinnar. Verður hann ekki við viðurkenna að stjórnarstefnan er röng, að það hafi reynst rangar áherslur að lækka skatta á hina efnamestu en hækka neysluskatta eins og matarskatta á almenning, að það séu rangar áherslur hjá ríkisstjórninni að hafa ekki reynt að tryggja langtímakjarasamninga á vinnumarkaði heldur að hafa stefnt öllu í þær illdeilur á vinnumarkaði sem þar eru nú með þeirri óvissu sem því fylgir og með þeim töfum á fjárfestingum og framförum í atvinnu- og efnahagslífi þjóðarinnar sem því óhjákvæmilega fylgja? Hefur bægslagangur ríkisstjórnarinnar við að draga til baka aðildarumsóknina að Evrópusambandinu ekki sömuleiðis haft neikvæð áhrif? Hefur misvísandi málflutningur forsætisráðherra og fjármálaráðherra um erlenda kröfuhafa og markmið okkar í losun gjaldeyrishafta ekki spillt því máli verulega þar sem annar lýsir því yfir að óhjákvæmilegt sé að taka áhættu við losun hafta meðan forsætisráðherra segir að enga áhættu megi taka um lífskjörin í landinu við það? Meðan forsætisráðherrann segir eitt missirið að alls ekki megi ráðast í samninga við kröfuhafa sendir fjármálaráðherrann Lee Buchheit til viðræðna við slitastjórnir þrotabúanna strax á næsta missiri, (Forseti hringir.) þegar forsætisráðherra segir að þegar í janúar verði skref stigin í því efni segir fjármálaráðherra í júlí og þar fram eftir götum.