144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:48]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi sem við greiðum nú atkvæði um eru tillögur starfshóps um breytingar á niðurgreiðslu til húshitunar settar algjörlega til hliðar. Þær tillögur voru kynntar í ríkisstjórn og í hv. fjárlaganefnd og atvinnuveganefnd snemma árs 2012 og þverpólitískur samhljómur var um þær. Hér er hins vegar farin sú leið að leggja meiri álögur á heimili og venjuleg fyrirtæki í þéttbýli, að því er virðist eingöngu til þess að hlífa stóriðjunni við að taka þátt í hinu mikilvæga samfélagslega verkefni að jafna raforkuverð í landinu og kostnað við húshitun. Samfylkingin getur ekki stutt þessa leið því að hún er ósanngjörn og auk þess er allt of hægt farið með frumvarpinu í að jafna húshitunarkostnað.

Virðulegur forseti. Við munum styðja breytingartillögu frá 2. minni hluta en sitja hjá við afgreiðslu annarra tillagna.