144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku.

107. mál
[15:51]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Með þessu frumvarpi er stigið fyrra skrefið af tveimur til að leiða til lykta áratugalangt viðfangsefni sem margoft hefur verið fjallað um í þinginu í gegnum áratugina, um að jafna kostnað við dreifingu raforku milli dreifbýlis og þéttbýlis annars vegar og jafna húshitunarkostnað til þeirra sem búa á köldum svæðum. Þetta er fyrra skrefið. Það er verið að jafna dreifikostnaðinn milli þeirra sem eru notendur í dreifiveitunum. Stóriðjan er ekki notandi að dreifikerfinu. Stóriðjan borgar tengigjöld sín annars staðar. Breytingartillaga minni hlutans um að framlengja raforkuskatt sem síðasta ríkisstjórn setti á tímabundið er ekki sú leið sem farin er hér. Ef ætlun síðustu ríkisstjórnar hefði verið að hafa þann skatt varanlegan hefði hún haft kjörið tækifæri til þess í fjögur ár.