144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[15:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Reykjanesbær glímir við mikinn fjárhagsvanda. Samkvæmt upplýsingum sem KPMG hefur tekið saman var hallarekstur viðvarandi á árunum 2002–2014. Aðeins á árinu 2010 skilaði reksturinn jákvæðri niðurstöðu. Á sama tíma voru skatttekjur lágar og mun lægri en í viðmiðunarsveitarfélögum og skuldir voru yfir viðmiðunarmörkum allan tímann. Skuldahlutfall bæjarins er nú um 250% á meðan viðmiðið í sveitarstjórnarlögum er 150%. Reykjanesbær er skuldugasta sveitarfélag landsins og rekstrarkostnaður bæjarins hefur vaxið mikið síðustu ár. Ný bæjarstjórn sem tók við stjórnartaumunum eftir síðustu sveitarstjórnarkosningar hefur lagt fram áætlun sem kölluð er Sóknin og miðar að því að koma rekstri bæjarins í þokkalegt horf. Áætlunin nær til næstu átta ára.

Fjárhagsstaða bæjarins kallar á margar erfiðar ákvarðanir sem varða íbúa bæjarins og starfsmenn hans. Áætlunin gerir ráð fyrir tekjuaukningu í formi hærra útsvars og fasteignagjalda, samtals um 455 millj. kr., og hagræðingu í rekstri um 500 millj. kr. á ári allt tímabilið. Einnig er gert ráð fyrir minni fjárfestingum og að B-hluta starfsemin skili hámarksarði. Þegar litið er yfir rekstrarsögu bæjarins verður sú spurning áleitin hver ábyrgð eftirlitsnefndar sveitarfélaga er. Ljóst er að áætlanir sem fyrrverandi bæjarstjórn lagði fyrir nefndina voru langt frá því í samræmi við niðurstöður ársreikninga. Íbúar bæjarins munu nú finna fyrir afleiðingum þess að ekki var tekið á vanda sem safnast hafði upp. Stjórnendur bæjarins gripu ekki til ráðstafana til að stöðva þessa slæmu þróun heldur gáfu frekar í en hitt. Eftirlitsnefndin virðist ekki hafa gert nógu skýra kröfu um breyttan rekstur. Atvinnuleysi hefur verið mikið á Suðurnesjum frá miðju ári 2008 og í mars 2011 mældist atvinnuleysi 14,5% á meðan það var 8,6% á landinu öllu. Atvinnuleysi nú er um 5% á svæðinu en á landinu öllu er hlutfallið rúmlega 3%. Enn er því atvinnuleysi á svæðinu með því mesta á landinu. Lækkun atvinnuleysisprósentunnar má að einhverju leyti rekja til þess að bótatímabil var fært aftur niður í þrjú ár um áramótin 2012/2013 eftir að hafa verið lengt tímabundið í fjögur ár, ekki síst vegna vanda langtímaatvinnuleysis á Suðurnesjum.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga hefur aukist verulega frá hruni og margir íbúar glíma við slæmar afleiðingar langtímaatvinnuleysis. Með ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar um frekari styttingu bótatímabils um hálft ár samhliða niðurskurði til starfsendurhæfingar hefur vandinn enn aukist. Áætlað er að við þessa ákvörðun muni fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar hækka um 70 millj. kr. í ár. Athuganir sýna að mörg börn á Suðurnesjum búa við fátækt og hlutfallslega fleiri en á landinu í heild. Raunhæft er að gera ráð fyrir að bág fjárhagsstaða Reykjanesbæjar þar sem búa um 14.500 íbúar bitni á þjónustu við börn. Harðast kemur slíkt niður á þeim heimilum þar sem ráðstöfunartekjur eru lágar. Þess má geta að hlutfall heimila í vanskilum á landinu er hæst á Suðurnesjum en 17% íbúa yfir 18 ára aldri eiga í alvarlegum vanskilum. Um 40% af íbúðum í eigu Íbúðalánasjóðs eru á Suðurnesjum. Allur þorri þeirra eigna stendur auður. Vandi Reykjanesbæjar hefur magnast vegna þess að íbúum svæðisins fjölgaði mjög mikið, um 30%, frá árinu 2005 til ársins 2009. Þegar stærsta sveitarfélag á Suðurnesjum á við svo stórkostlega fjárhagserfiðleika að stríða veikir það nágrannabyggðirnar. Það þarf að vinna að áætlun að því að efla atvinnulíf og samfélag á Suðurnesjum og það þarf að vera samstarf á milli ráðuneyta um fjárfestingar í mannauði, nauðsynlegum innviðum efnahagslífs og hvernig best megi styrkja þætti þess eins og hag barna, menntun, menningu, nýsköpun, atvinnulíf og samfélagslega innviði til að styðja við áætlun nýrrar bæjarstjórnar í Reykjanesbæ.

Fyrir stuttu svaraði hæstv. innanríkisráðherra munnlegri fyrirspurn minni um ríkisstyrk til framkvæmda við Helguvíkurhöfn. Aðkoma ríkisins að því verkefni næmi um 180 millj. kr. og væri styrkur í verki. Annað sem mér finnst mikilvægt að taka til athugunar er að ríkið á miklar eignir á Ásbrú þar sem herinn var áður og hefur afslátt af fasteignaskatti því að af þeim eignum sem standa tómar greiðir ríkið ekki fasteignaskatt og nemur afslátturinn um 90 millj. kr. á ári, sem Reykjanesbær veitir ríkinu. Ég vil spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort hún telji ekki að það þurfi að líta til svona verkefna (Forseti hringir.) til að styrkja stöðu Reykjanesbæjar og þá um leið svæðisins á Suðurnesjum.