144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:10]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hlutskipti stjórnenda Reykjanesbæjar hefur ekki alltaf verið auðvelt, hvorki fyrrverandi né núverandi stjórnenda. Núverandi stjórnendur hafa fengið mikinn skuldavanda í fangið. Fyrrverandi stjórnendur þurftu að glíma við afleiðingar hrunsins eins og við öll og mikið atvinnuleysi er að auki á Suðurnesjum og hefur brotthvarf hersins verið nefnt í því sambandi. En vandinn hefur síður en svo verið einvörðungu utanaðkomandi. Hann hefur líka verið sjálfskaparvíti og af pólitískum toga, sömu gerðar og skrúfan sem hefur forskrúfast í sálarlífi Viðskiptaráðs Íslands svo rækilega að annað veifið erum við minnt á að svo sé.

Nú í síðustu viku var hvatt til þess að ríki og sveitarfélög seldu eignir sínar fyrir 800 milljarða. Jafnframt var hvatt til einkavæðingar einkum í orkugeiranum. Nákvæmlega þetta gerðu bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ. Þau seldu eignir sínar án þess að leggja andvirðið fyrir til síðari tíma líkt og gerðist í frægu dæmi frá Danmörku, Farum-sveitarfélaginu, það seldi eignir sínar og leigði þær svo til baka með ærnum prís. Það er einn vandinn. Síðan þekkja allir hina hörmulegu sögu einkavæðingar Hitaveitu Suðurnesja sem hófst 2007 þegar 29% hlutur var seldur til Geysir Green Energy. Síðan voru aftur hrókeringar 2009, reyndar ekki allar af hinu illa þá, alls ekki, þá var reynt að snúa ýmsu til baka en þá öðlaðist Geysir Green Energy, sem nú hefur farið í gjaldþrot upp á 28,5 milljarða kr., meirihlutaeign (Forseti hringir.) og Magma kom inn í málið.

Nú er aftur verið að hvetja til þess að haldið sé út í fenið (Forseti hringir.) samkvæmt hinni gömlu forskrift Viðskiptaráðs Íslands. Þetta er dæmi sem við getum öll lært af, (Forseti hringir.) ekki bara Reyknesingar.