144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:12]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir þessa umræðu þó að ekki sé hún mjög gleðileg.

Sú þjónusta sem sveitarfélög bera ábyrgð á að veita íbúum sínum lögum samkvæmt er gríðarlega mikilvæg fyrir þá, svo sem barnavernd, þjónusta við fatlað fólk og rekstur leikskóla og grunnskóla. Allt hefur það mikil áhrif á lífsgæði fólks og tækifæri í lífinu. Góð grunnmenntun getur ráðið mestu um tækifæri til frekari menntunar og atvinnu. En öll sú þjónusta er háð því að til sé nægilegt fé. Sveitarfélög ráða málefnum sínum sjálf en þó er gert ráð fyrir að innanríkisráðuneytið fylgist með að þau fari að ýmsum reglum varðandi þjónustu og framkvæmd. Þá er sérstök eftirlitsnefnd á vegum ríkisins til þess að fylgjast með fjármálastjórn sveitarfélaga.

Hér skal ekki gert lítið úr þeirri ábyrgð sem sveitarstjórnarfólk ber á rekstri sveitarfélaga sinna, svo sannarlega ekki, það er öðru nær, en það er mjög ámælisvert þegar þau fara gáleysislega með almannafé sem þeim er treyst fyrir. Það er líka mjög mikilvægt að eftirlit sem ríkið hefur með fjármálum sveitarfélaga virki vel. Það eftirlit er til þess að verja mjög mikilvæga hagsmuni ekki síst íbúa sveitarfélaganna. Ef þörf er á verðum við að gera viðeigandi breytingar á lögum og reglum til að þau virki vel. Við eigum líka að læra af því máli sem hér er til umfjöllunar, eins og fram kom í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar áðan. En við verðum líka að muna að íbúar í Reykjanesbæ eru ekki gerendur í málinu heldur fyrst og fremst þolendur. Þeir líða mest fyrir vondar ákvarðanir sem stjórnmálamenn tóku sem þeir treystu og að eftirlitskerfi með því virkaði ekki sem skyldi, eins og fram kom hjá málshefjanda, hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, fjárhagsstaðan var neikvæð í fleiri ár í Reykjanesbæ án þess að nokkuð væri að gert.