144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:19]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þessa umræðu um stöðu mála í Reykjanesbæ. Það er hrósvert með hvaða hætti bæjarstjórnin hefur tekið á málum þar og auðvitað er það því miður þannig að íbúar í Reykjanesbæ munu þurfa að bera auknar byrðar vegna þessara fortíðarsynda. Það hefur verið ánægjulegt að sjá að bæjarstjórnin hefur haldið ítrekað íbúafundi, gert allt sem mögulegt er til að halda íbúum upplýstum og fá fólk í bænum með í þetta erfiða verkefni af því að það eru nefnilega alltaf takmörk fyrir því hversu langt er hægt að ganga í að láta almenna skattborgara bera byrðar af mistökum fortíðarinnar. Við sjáum það nú síðast í Grikklandi og ástandinu þar. Það eru takmörk fyrir því hvað hin lýðræðislega umgjörð gerir mögulegt að leggja á venjulega skattborgara. Þar verðum við að fara fram á að ríkið sýni líka ákveðna sanngirni og skynsemi.

Þess vegna skiptir svo miklu máli að horfa á það hvernig við gátum komist í þessa skelfilegu stöðu. Það er óhjákvæmilegt að horfa til þess að á undanförnum árum hafa draumkennd fjárfestingaráform frá þáverandi bæjaryfirvöldum í Reykjanesbæ verið samþykkt af eftirlitsnefndinni. Það er líka óhjákvæmilegt að spyrja af hverju viðvörunarbjöllur hringdu ekki fyrr. Við hljótum að þurfa að rekja þessa raunasögu Reykjanesbæjar árin aftur í tímann og spyrja af hverju ekki var gripið í taumana fyrr vegna þess að kostnaðurinn fyrir íbúana í Reykjanesbæ er hræðilegur. Ríkið hlýtur að bera ábyrgð á því að hafa eftirlitskerfi sem virkar. Við hljótum að þurfa að rekja söguna til þess að læra af henni, til þess að forðast að staðan endurtaki sig. Eftirlitsnefndin hlýtur að þurfa að skýra það hvernig samþykkt voru áform bæjaryfirvalda í Reykjanesbæ árum saman á undanförnum árum (Forseti hringir.) þegar á almannavitorði var að engin efnisleg innstæða var fyrir þeim skýjaborgum sem þar voru byggðar.