144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:23]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru augljóslega margir samverkandi þættir sem hafa leitt til þeirra miklu erfiðleika sem við er að glíma á Suðurnesjum og því miður víðar en í Reykjanesbæ, samanber þunga skuldastöðu Sandgerðis. En það verður líka að horfa til þeirrar ábyrgðar sem fyrri stjórnendur bæjarins bera. Ég held að sé ekki hægt að komast að annarri niðurstöðu en þeirri að einkavæðingar- og úthýsingarstefnan sem þar var rekin hafi reynst skammgóður vermir eins og víðar. Menn selja og fá fé í kassann, sitja síðan uppi með dýra leigu og eiga svo ekki neitt á árunum þegar leigugreiðslurnar þyngjast og þyngjast.

Ég tel sömuleiðis að ofuráhersla á íbúðabyggingar og fólksfjölgun á þensluskeiðinu á svæði þar sem undirstöður atvinnulífsins voru veikar eigi að sjálfsögðu sinn þátt í því að þegar síðan harðnar á dalnum þá verður atvinnuástandið mjög slæmt á þessu svæði.

En staðan er eins og hún er. Það er grafalvarlegt mál að fimmta stærsta sveitarfélag landsins sé í þessum miklu erfiðleikum. Þó að ný bæjarstjórn sé að takast á við stöðuna af einurð þá eru það án efa þungbær spor að auka álögur á íbúana, því eru takmörk sett og undir það tek ég.

Ég tel þar af leiðandi að við slíkar aðstæður eigi stjórnvöld að gera allt sem þau geta til að styðja við bakið á svæði sem á í slíkum erfiðleikum og sérstaklega þegar menn sýna sjálfir að þeir eru að takast á við erfiðleikana og færa fórnir í þess þágu. Það geta menn gert með ýmsum hætti. Fyrri ríkisstjórn fór í sérstaka heimsókn á þetta svæði og setti þá ýmis verkefni af stað. Þau voru kannski ekki risavaxin, en allt var það þó til þess að reyna að hjálpa til. Ég hef lítið orðið var við að núverandi ríkisstjórn hafi hleypt heimdraganum með sambærilegum hætti. Ríkið stendur þrátt fyrir allt á bak við, beint og óbeint, mikla fjárfestingu og uppbyggingu á svæðinu. Má þar nefna uppbyggingu í flugstöð Leifs Eiríkssonar og framkvæmdir á Ásbrú, en þar er auðvitað hægt að gera betur.

Að síðustu, herra forseti, vil ég segja að það er mín skoðun og það hefur verið mín skoðun að þegar sveitarfélög lenda í erfiðleikum af þessu tagi þá eiga önnur sveitarfélög í landinu (Forseti hringir.) líka að koma að því borði að hjálpa til. Það á líka að vera samábyrgð meðal sveitarfélaganna (Forseti hringir.) í landinu og þau geta í gegnum samtök sín og sjóði lagt sitt af mörkum, t.d. með hagstæðum lánveitingum og góðum kjörum (Forseti hringir.) á lánum úr Lánasjóði sveitarfélaga.