144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

fjárhagsstaða Reykjanesbæjar.

[16:28]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í fyrri ræðum hefur verið tæpt á nokkrum grundvallaratriðum er varða rekstur sveitarfélaga, ábyrgð bæjarstjórna og hlutverk eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga. Og það er gott að heyra að rekstur sveitarfélaga sé almennt á uppleið eftir efnahagshrunið. En það sveitarfélag sem við ræðum um í dag, Reykjanesbær, er ekki á góðum stað og útlit er fyrir að það taki mörg ár að koma rekstri bæjarins í viðunandi horf. Samkvæmt ársreikningi bæjarins fyrir árið 2013 voru skuldir og skuldbindingar í hlutfalli af heildartekjum allt of miklar — skuldaviðmið ársins 2013 var 255%!

Öll sveitarfélög urðu fyrir skaða af völdum efnahagshrunsins. Mörg sveitarfélög hafa orðið fyrir því að tapa störfum af svæðinu sínu. Það er þó ekki samasemmerki með því og að kafsigla rekstur sveitarfélags, eins og gerst hefur í Reykjanesbæ. Ég er reið og döpur yfir því að svona sé komið fyrir okkur. Niðurstaðan er nefnilega sú að íbúarnir þurfa að borga reikninginn fyrir framúrkeyrsluna dýru verði. Útsvarið okkar hækkar umtalsvert og hið sama á við um fasteignagjöldin. Þetta er veruleg kjaraskerðing fyrir íbúa Reykjanesbæjar. Jafnframt verður þjónusta við íbúa skert á ýmsum sviðum.

Ég vil að við veltum því vandlega fyrir okkur hvort eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga eigi ekki að hafa ríkari upplýsingaskyldu gagnvart íbúum þegar bæjarstjórnendum er ekki treystandi til að vera fullkomlega heiðarleg í sinni upplýsingagjöf til íbúa. Ég vil líka velta því hér upp hvort við ættum jafnvel að skoða hvort hlutverk eftirlitsnefndarinnar eigi að vera meira og ganga enn lengra hvað inngrip varðar.

Í tilfelli Reykjanesbæjar er allt of seint í rassinn gripið. Látum það ekki henda önnur sveitarfélög. Í mínum huga felst lausnin í því að styrkja eftirlitið með rekstri sveitarfélaga enn frekar og upplýsingagjöfina til íbúa.