144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 153/2014, um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn, um almenna þjónustu, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/24/ESB um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og framkvæmdartilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2012/52/ESB um ráðstafanir til að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðru aðildarríki.

Fyrrnefnda tilskipunin hefur það markmið að greiða fyrir aðgengi að öruggri, hágæða heilbrigðisþjónustu yfir landamæri og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja, án þess þó að gengið sé á rétt ríkjanna til að skipuleggja eigin heilbrigðisþjónustu og hvernig hún er veitt í hverju ríki fyrir sig.

Í þeirri síðarnefndu er svo að finna ráðstafanir sem auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðru aðildarríki.

Innleiðing gerðanna kallar á breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og er stefnt að því að heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp þess efnis á yfirstandandi þingi. Heilbrigðisráðherra mun að sjálfsögðu fjalla nánar um frumvarpið þegar það verður lagt fram, en til að stikla á stóru þá verður í því, til samræmis við tilskipunina um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, kveðið á um rétt einstaklinga til að velja að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars EES- eða EFTA-ríkis. Sjúkratryggingum er gert að greiða kostnað af því eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða, enda sé sams konar þjónusta hluti þeirrar þjónustu sem sjúkratryggingar taka þátt í að greiða hér á landi. Þetta gildir þó ekki um þjónustu við athafnir daglegs lífs, ráðstöfun líffæra og aðgengi að þeim til líffæraflutninga eða bólusetningar gegn smitsjúkdómum. Þá verður heimild til að takmarka endurgreiðslu kostnaðar á grundvelli brýnna almannahagsmuna.

Í dag er fátítt að einstaklingar ferðist milli landa til að sækja sér heilbrigðisþjónustu innan ESB og er talið að svo verði áfram þar eð mikill meiri hluti sjúklinga fær heilbrigðisþjónustu í eigin landi og kýs það öðru fremur. Við innleiðingu tilskipunarinnar verður einstaklingum sem búa hérlendis gert auðveldara að sækja heilbrigðisþjónustu til annarra EES-ríkja og má því ætla að einhverjir telji það heppilegri kost. Í innleiðingu á frumvarpinu er þó unnt að setja kröfur um fyrirframsamþykki í tilteknum tilvikum til samræmis við heimildir tilskipunarinnar.

Venju samkvæmt mun kostnaðarmat fylgja frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara og því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeim breytingum á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.