144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:43]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þingmanni, það er ekkert nema eðlilegt við það að sjúklingar leiti leiða til að fá sem fyrst þjónustu og úrlausn sinna vandamála. Það er ekkert hér sem kemur í veg fyrir að hvert ríki skipuleggi sína heilbrigðisþjónustu út frá því hvernig hún er veitt heima fyrir. Það fellur ekki öll heilbrigðisþjónusta undir þessa tilskipun svo að það sé nú líka nefnt. Þó svo að gert sé ráð fyrir að almennt sé ekki krafist fyrirframsamþykkis þegar sjúklingur leitar yfir landamæri eftir þjónustu þá er heimilt að gera slíkt ef það er til dæmis gert í þágu almannahagsmuna o.s.frv. Ég lít svo á að þessi tillaga, frumvarpið er vitanlega ekki komið fram, að þetta mál ætti að vera til hagsbóta fyrir sjúklinga.