144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Þessi umræða er lík mörgum umræðum sem við eigum um tillögu til þingsályktunar um staðfestingar á ýmsum tilskipunum Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Ég tel það vera dálítið hættulegt hvað við gerum lítið af því að kryfja þessar tilskipanir. Við þekkjum öll Icesave-málið sem byggði á tilskipun Evrópusambandsins og hefur síðan vaxið enn frekar í tilskipunarferlinu hjá Evrópusambandinu, og við þekkjum mörg önnur dæmi um tilskipanir sem eru gallaðar, vil ég segja. Ég skora því á hv. þingmenn að lesa þingsályktunartillögurnar frá hæstv. utanríkisráðherra miklu nánar og betur og gæta sín á því að samþykkja þær ekki alveg í blindni. En reyndin er sú að þær fá ekki mikla umræðu. Og þegar viðkomandi lagafrumvörp koma til þess að fylla upp í tilskipanir er sagt: Ja, þetta er nú bara samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins og við verðum að samþykkja það. Við sitjum þannig uppi með tilskipanir, sem stundum og reyndar oftast eru mjög góðar og til mikilla bóta, en einstaka sinnum geta verið þær mjög skaðlegar. Ég minni aftur á innlánstryggingatilskipunina sem ég held að sé bara alls ekki góð.