144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 153/2014 um breytingu á X. viðauka við EES-samninginn.

515. mál
[16:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég nefndi þetta sem dæmi um tilskipun sem að mínu mati er ekki góð. Ég get fært rök fyrir því að innlánstryggingar sem stefna að því að tryggja örlítið brot af innlánum í landinu — segjum að banki sem er með 20% markaðshlutdeild í innlánum, sem allir þrír bankarnir á Íslandi eru með, að kerfið þoli ekki að gjaldþrot verði hjá slíkum aðila, það er bara ekki gott kerfi. Það má meira að segja færa rök fyrir því að í flestum löndum Evrópusambandsins mundi kerfið ekki þola það að stór banki með 20% markaðshlutdeild og jafnvel miklu minni færi á hausinn. Þannig að ég nefndi það sem dæmi.

En það sem ég er að segja er að ég mundi vilja hvetja hv. þingmenn til að taka miklu meiri þátt í því að skoða það þegar málin koma inn, tillögur til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðunum varðandi ákveðnar tilskipanir. Hér er til dæmis verið að ræða tilskipun um almenna þjónustu í heilbrigðisgeiranum sem gerir að verkum að fólk getur farið víða um Evrópu til að ná sér í heilbrigðisþjónustu sem það telur sig ekki hafa hérna. Ég er bara að nefna það að þessar tilskipanir eru ekki endilega eins góðar og menn kynnu að halda af svona stóru batteríi eins og Evrópusambandið er.