144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:03]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef sagt það áður og segi það enn að mér finnst lokafjárlög alltaf vera mjög óaðgengileg. Það þarf töluvert að hafa fyrir því að leita að upplýsingum og átta sig á hvernig það allt er sett fram. En af því að ráðherrann minntist á ríkisreikninga þá höfum við aðeins verið að velta því upp hvort ekki þurfi að vera samræmi milli höfuðstóls í lokafjárlögum og ríkisreikningi af því að ætlunin er jú að staðfesta ríkisreikninginn með þessu frumvarpi.

Það er til dæmis neikvæð staða á fjárlagaliðnum Flugvellir og flugleiðsöguþjónusta. Maður veltir fyrir sér hvort ekki þyrfti þá að leiðrétta það því að í fjáraukalögunum kemur fram að gera hefði átt ráðstafanir til að þetta yrði fært úr ríkisreikningi. Það er ekki tilgreint hvernig á að gera það. Ég spyr ráðherra hvort hann telji að hér megi fara betur.

Svo er annað, Fjármálaeftirlitið. Það er liður 04-241. Þar er öllum mörkuðum tekjum liðarins ráðstafað til hans. Það kemur þar fram sem betri afkoma og hækkun á höfuðstólnum en í fjárlögunum hafði verið gert ráð fyrir að 92 millj. kr. yrði haldið eftir í ríkissjóði. Og það er líka þetta sama, hvaða skoðun hefur hæstv. fjármálaráðherra á þessari framsetningu?

Mig langar líka að spyrja um annað af því að ég átta mig ekki á því. Þegar maður er að fletta í fyrri hluta frumvarpsins þá koma þar ákveðnar sundurliðanir sem er ekki endilega að finna í fylgiskjali 1 og 2, til dæmis í lið 04-583 á bls. 38, Niðurgreiðslur á húshitun. Þar eru sértekjur upp á 1,7 millj. kr., það er svo sem ekki meira, en hvað er það? Hvaða sértekjur er um að ræða?