144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:05]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi það samræmi sem vísað er til og snertir frumvarp til lokafjárlaga og ríkisreikning vil ég vekja athygli á því að samkvæmt því fyrirkomulagi sem gert er ráð fyrir að verði með nýjum lögum um opinber fjármál þá taka þessi mál talsverðum breytingum og lokafjárlögin verða í sjálfu sér óþörf samkvæmt því fyrirkomulagi sem þar er verið að leggja upp með.

Um skýringar á einstökum atriðum sem spurt er um þá vék ég stuttlega að því í máli mínu að breytilegt getur verið hvernig fer með sértekjur. Það er almenn regla sem ég vék að og leiðir til þess að þeim er varið til að standa undir þeirri starfsemi sem er að baki tekjuöfluninni þegar um markaðar tekjur er að ræða, en sú regla er þó ekki algild. Ég hygg að tilvikið sem nefnt var og tengist Fjármálaeftirlitinu sé af því taginu. Að því leytinu til eru fjárlögin og jafnvel fjáraukalögin eingöngu áætlun um vissa þætti sem ekki verða gerðir upp endanlega fyrr en viðkomandi fjárlagaári er lokið og við höfum fengið tækifæri til að horfa yfir fjárlagaárið í heild sinni og hvernig það gerist upp með tilliti til ríkisreiknings og síðan er það endurspeglað hér í þessu riti.

Um hin atriðin sem spurt var um tel ég alveg augljóst að það ætti að vera hægt að fá nánari upplýsingar um þau í meðferð nefndarinnar.