144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Lokafjárlög eru sett fram til að staðfesta ríkisreikning. Ríkisreikningur fyrir árið 2013 var lagður fram í ágúst á síðasta ári og nú erum við að ræða lokafjárlögin sem eru ríkisreikningi til staðfestingar.

Ég held reyndar að aldrei hafi tekist að leggja fram samhliða ríkisreikning og lokafjárlög, eins og gert er ráð fyrir í fjárreiðulögum, og það tókst ekki heldur núna. Það er rétt að minna á það af því að gagnrýnt er á hverju ári að það takist ekki og ekki sé gott fyrir okkur sem vinnum með ríkisreikning og lokafjárlög að svona langur tími líði á milli.

Ríkisendurskoðun skilaði skýrslu í nóvember í fyrra um endurskoðun ríkisreiknings og fer þar yfir nokkra hluti. Fram kemur að tekjuhallinn samkvæmt ríkisreikningi árið 2013 sé um 700 millj. kr., en hins vegar höfðu fjárlög og fjáraukalög gert ráð fyrir að hann yrði 19,7 milljarðar kr. Það er ágætt að benda á það í framhaldi af þeim orðum sem fóru á milli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra varðandi afkomu ársins 2013. Ég vil tala um Markaðspunkta Arion banka sem gefnir voru út 18. ágúst 2014 og vitna, með leyfi forseta, í þá fróðlegu greiningu. Þar er farið yfir stöðuna en jafnframt bent á að afkoma ríkissjóðs, ef við drögum frá óreglulega liði bæði tekjumegin og gjaldamegin, er í plús upp á 9 milljarða kr.

Þar segir að til þess að greina undirliggjandi rekstur ríkissjóðs sé gagnlegt að horfa fram hjá óreglulegum liðum og skoða hvernig afkoman þróast á milli ára og síðan er sýnt myndrænt hvernig þróunin var frá árinu 2009 og til ársins 2013 samkvæmt ríkisreikningi. Frá því sjónarhorni, segir í greiningunni, er afkoma ríkissjóðs jákvæð árið 2013 um 9 milljarða kr. og batnar um 20 milljarða kr. á milli ára. Þá sést einnig af þeirri mynd sem þeir sýna að umtalsverður árangur hefur náðst síðastliðin fimm ár þar sem afkoman hefur batnað jafnt og þétt milli ára og er tæplega 120 millj. kr. betri en árið 2009.

Það er fróðlegt að skoða þá hluti án óreglulegra liða, vegna þess að á tímabilinu koma inn stórar upphæðir sem teljast óreglulegir liðir. Það er Íbúðalánasjóður, við höfum brugðist við afkomu hans, og eins og hæstv. ráðherra benti á koma inn tekjumegin á árinu 2015 25 milljarðar kr. vegna eignaaukningar ríkissjóðs í Landsbankanum. Á móti kemur líka að skattkröfur eru afskrifaðar upp á 22 milljarða kr., eða tæplega 12 milljörðum meira en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta eru því líka óreglulegir liðir sem vega upp á móti og fleiri liðir koma þarna inn sem virka á bæði tekju- og gjaldahlið. En ef við horfum á einungis grunnreksturinn hefði niðurstaðan orðið 9 milljarðar í plús á árinu 2013, sem er afar jákvætt.

Ég nefndi áðan afskriftir skattkrafna sem samkvæmt ríkisreikningi 2013 eru 21.883 millj. kr. en áætlun í fjárlögum hafði verið gert ráð fyrir að þetta yrðu 10 milljarðar kr. Við í fjárlaganefndinni höfum gagnrýnt að ekki sé hægt að áætla nákvæmar afskriftirnar vegna þess að þær fara eftir ákveðnum reglum. Það er ekki nema komi óvænt inn stórt gjaldþrot, sem er þá auðvitað allt fært niður í einni svipan af því að ljóst er að ekki er hægt að innheimta kröfurnar. En þar sem við sjáum ekkert slíkt á árinu 2013 höfum við beðið Ríkisendurskoðun að skoða þessar afskriftir. Ef allt hefði verið eins og það er, ef afskriftir skattkrafna hefðu verið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir, hefði ríkissjóður komið út í plús á árinu 2013.

Mér finnst þetta umhugsunarefni en ég er ekki að ásaka neinn um neitt. Ég vil aðeins ganga úr skugga um að þeir sem færa niður skattkröfurnar, og auðvitað eru þetta bara reiknaðar tölur og pólitíkin á hvergi að koma þar nærri, horfi ekki á niðurstöðu ársins og segi: Ja, þarna er borð fyrir báru. Við skulum taka svolítið góðan stabba af skattkröfum og færa þær niður núna af því að það er borð fyrir báru. Ég vil ganga úr skugga um að sú hafi ekki verið raunin heldur sé farið eftir ákveðnum reglum sem eru til skráðar og um leið að það sé farið yfir áætlanir.

Við getum horft á árið 2012 þar sem einnig var gert ráð fyrir um 10 millj. kr. afskriftum skattkrafna en í ljós kom að þær urðu tæplega 5 milljarðar, þannig að þar er líka í hina áttina mikill munur á áætlunum og síðan afskriftum og mikilvægt að fara yfir þau mál. En ef við tækjum einungis afskriftir skattkrafna frá og þær hefðu orðið eins og áætlanir gerðu ráð fyrir hefði árið 2013 komið út í plús. Það er svolítið athyglisvert og sannarlega ástæða til að bera þá niðurstöðu saman við þann hamagang sem ég leyfi mér að segja að hafi verið í forustumönnum stjórnarflokkanna, bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, hér um mitt ár þegar þeir lýstu nánast yfir neyðarástandi í ríkisfjármálum á árinu 2013. Svo þegar raunveruleikinn birtist í ríkisreikningi og lokafjárlögum kemur allt annað í ljós.

Virðulegi forseti. Mér finnst sjálfsagt að íbúar þessa lands máti þetta saman, rifji upp hvað sagt var og hvað gert var, því að það sem var gert þegar ný hæstv. ríkisstjórn tók við var að gefa afslátt á veiðileyfagjöldum, nema úr gildi lög sem gerðu ráð fyrir að erlendir ferðamenn greiddu hér hærri neysluskatt fyrir gistingu og afnema fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnar að mestu leyti, þó ekki að öllu leyti. Þetta eru stærstu póstarnir sem breytt var og síðan var þrengt að stofnunum að öðru leyti. Niðurstaðan sem átti að vera samkvæmt áætlunum nýrrar ríkisstjórnar upp á tæpa 20 milljarða varð svo sannarlega ekki þannig heldur var hún 700 milljónir og ef óreglulegir liðir eru teknir frá hefði niðurstaðan orðið 9 milljarðar í plús. Mér finnst þetta vera fréttir sem vert er að staldra við.

Ríkisendurskoðun bendir á ýmislegt sem hún hefur bent á aftur og aftur í mörgum skýrslum til Alþingis um ríkisreikninga. Sumt af því mun vonandi lagast ef ný lög um opinber fjármál verða samþykkt og það eru svolítið svör ráðuneytanna við sumum athugasemdanna.

Mig langar að staldra við nokkrar athugasemdir Ríkisendurskoðunar. Ein af þeim er að Alþingi kanni möguleika á að setja lög um skattstyrki. Mér finnst þetta vera athyglisverð athugasemd og það segir hér í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Á árinu 2013 námu skattstyrkir 17,8 milljörðum kr. samanborið við 17,2 milljarða kr. á árinu 2012. Á undanförnum árum hefur Ríkisendurskoðun vakið athygli á meðferð skattstyrkja í bókhaldi ríkisins, flokkun þeirra og lagaumhverfi. Fjármálaráðuneytið hefur í umfjöllun í fjárlagafrumvörpum síðustu ára lýst þessu vandamáli þannig: … með beitingu skattstyrkja verða mörkin á milli tekna og gjalda hjá hinu opinbera óskýrari og um leið verður skattkerfið ógagnsærra og flóknara. Enn fremur er tilhneiging til að viðhalda þeim mjög rík, jafnvel þótt upprunalegu rökin fyrir tilvist þeirra eigi ekki lengur við.

Það var og er mat Ríkisendurskoðunar að Alþingi þurfi að skoða forsendur þess að setja sérstaka löggjöf um skattstyrki þar sem kveðið væri skýrt á um markmið skattafslátta og þau væru vel skilgreind og mælanleg. Allar forsendur, athuganir og útreikningar sem lögð væru fyrir þingið þyrftu að vera ítarleg og skjalfest. Þá er lagt til að gildistími yrði í öllum tilfellum takmarkaður.“

Mér finnst þetta mjög áhugavert og held að mikilvægt sé að fara út í þá vinnu og jafnframt að skilgreina hvað skattstyrkir eru. Ég vil velta fyrir mér til dæmis þegar atvinnugrein býr við neysluskatta, svipað og almenningur býr við þegar hann verslar nauðsynjar eins og matvöru, hótel og gistiheimili, er það skattstyrkur eða hvað? Það er mjög mikilvægt, finnst mér, að við skilgreinum hvað skattstyrkur til fyrirtækja og atvinnuvega er og veltum því fyrir okkur í leiðinni varðandi atvinnugrein sem innheimtir lægri neysluskatta en aðrar atvinnugreinar hvort sérstakur skattstyrkur sé fólginn í því eða ekki. Mér finnst þetta áhugavert umfjöllunarefni sem ég tek undir með Ríkisendurskoðun að fara þurfi yfir.

Síðan bendir Ríkisendurskoðun á að umfjöllun um áhættu ríkissjóðs verði birt í skýringum með ríkisreikningi. Þeir eru sem sagt að leggja áherslu á að farið verði yfir þá áhættu sem ríkissjóður býr við og það verði útskýrt og tekið fram þannig að fólk geti áttað sig á áhættunni. Þar er talað um gjaldmiðlaáhættu, það er talað um lausafjáráhættu, vaxtaáhættu, mótaðilaáhættu, endurfjármögnunaráhættu og áhættu vegna hugsanlegra náttúruhamfara.

Í niðurstöðu sinni segir Ríkisendurskoðun að verði frumvarp um opinber fjármál samþykkt muni þetta verða með öðrum hætti en nú er. En óháð því hver afdrif frumvarps til laga um opinber fjármál verða telur Ríkisendurskoðun rétt að umfjöllun um stærstu fjárhagslegu áhættuþætti ríkissjóðs verði bætt við skýringar með ríkisreikningi.

Ég tel afar mikilvægt að við gerum það. Ríkissjóður hefur orðið fyrir miklu áfalli, ekki síst vegna áhættu sem tekin var. Við eigum að læra af þeirri reynslu og reyna að skilgreina áhættuna og um leið koma í veg fyrir að hún verði of mikil.

Virðulegur forseti. Þetta frumvarp til lokafjárlaga er hér í 1. umr. og fer nú í vinnslu í hv. fjárlaganefnd. Ég mun ræða frekar um einstaka liði frumvarpsins við 2. umr.