144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:36]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vona að ég hafi komið því skýrt á framfæri í máli mínu að ég lagði áherslu á að þetta eru reiknireglur sem pólitík á ekki að koma nálægt. Við í fjárlaganefnd fengum hins vegar ekki skýringar á því í hverju þessi munur er falinn. Við höfum óskað eftir því að Ríkisendurskoðun fari í gegnum það og útskýri fyrir fjárlaganefnd, vegna þess að við viljum ekki sitja uppi með einhverjar getgátur um að af því að borð var fyrir báru árið 2013 hafi þetta verið gert en ekki 2012, skilur hv. þingmaður mig? Að það sé alveg öruggt, að við getum verið alveg viss um það og fáum fyrir því gögn að farið hafi verið eftir reglunum. Það er ákveðin töf í skattkröfunum, eins og hv. þingmaður þekkir væntanlega, þannig að á ákveðnum árafresti hefur eitthvað safnast upp sem er síðan afskrifað nema það komi inn stórt gjaldþrot. Þá gera menn auðvitað ráð fyrir því að fá það ekki greitt og því engin ástæða til þess að vera þar með töf.

Þess vegna höfum við í fjárlaganefndinni kallað eftir skýringum á því, af því að það á að liggja ljóst fyrir. Að mínu viti á að vera hægt að áætla þetta nákvæmar og við eigum að geta séð svona sveiflur nokkuð fyrir nema um stór gjaldþrot sé að ræða sem óvænt koma upp. Það hefur enginn sýnt okkur fram á að svo hafi verið á árinu 2013. Við í fjárlaganefnd bíðum enn þá eftir greiningu Ríkisendurskoðunar sem mun örugglega leiða þetta í ljós.