144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:39]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður óskar eftir því sem nefndarmaður í fjárlaganefnd að Ríkisendurskoðun útskýri afskriftir skattkrafna árið 2013. Ég tek undir það með hv. þingmanni að þegar gert er ráð fyrir því í fjárlögum að þær séu 10 milljarðar en skattkröfur eru afskrifaðar upp á 22,5 milljarða kalli það á skýringu. En ég held að það kalli líka á skýringu ef skattkröfur eru í fjárlagafrumvarpi áætlaðar 10 milljarðar en eru svo eingöngu 5, hvers vegna svo sé.

Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Mun hv. þingmaður jafnframt kalla eftir endurskoðun Ríkisendurskoðunar á því af hverju skattkröfur sem lágu fyrir í frumvarpinu 2012 upp á 10 milljarða urðu ekki 10 milljarðar heldur 5? Þetta hlýtur að ganga jafnt í báðar áttir ef meginhugtakið er að standast fjárhagsáætlun og hvað varðar fjárlög, hvort heldur er fjárhagsáætlun sveitarfélaga eða fjárlög ríkisins, þarf að vera nokkuð ljóst á hverju ári hversu lengi skattkröfur hafa legið og ljóst hvort það næst að innheimta eður ei. Ég tek því undir með hv. þingmanni að það liggi nokkuð ljóst fyrir, en það er spurning hvenær þær eru afskrifaðar og af hverju þær eru stundum afskrifaðar meira en minna.