144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Vitanlega er ekki einungis tekið árið 2013. Það þarf að skoða fleiri ár, einmitt út af þeim reglum sem farið er eftir. Kröfurnar liggja í ákveðinn árafjölda og síðan eru þær afskrifaðar ef ljóst er að ekki er hægt að innheimta þær. Til þess að auðvelda okkur í fjárlaganefnd eftirlitshlutverkið er afar mikilvægt að áætlanir séu nákvæmar og góðar og að hægt sé að nýta þær sem stjórntæki.

Sveiflurnar á árinu 2013 upp á tæpa 12 milljarða — þetta er ansi stór upphæð. Eins og ég fór yfir í máli mínu áðan er það þannig að ef áætlun hefði staðist værum við með jákvæðan rekstur þrátt fyrir óreglulega liði á árinu 2013. Það munar sannarlega um 12 milljarða í reikningum ríkisins. Mér finnst mikilvægt að áætlanir séu yfir höfuð vandaðar og það þarf að fara í gegnum þau mál. Það er ekki pólitík sem á að vera í afskriftum skattkrafna, og ég er ekki að segja að hún sé þar, en við þurfum í ljósi gegnsæis og trausts að fá þetta upp á borðið svo að við getum í framhaldinu áætlað betur niðurfærslu skattkrafna í framtíðinni.