144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[17:42]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Það verður seint sagt að sérlega spennandi sé að ræða lokafjárlög. Þau hafa í gegnum tíðina verið sett fram með því lagi sem hér er sem er alls ekki nógu aðgengilegt að mörgu leyti. Maður veltir því fyrir sér þegar við í fjárlaganefnd þurfum að hafa töluvert fyrir því að lesa saman og reyna að finna út úr því sem þar kemur fram og jafnvel spyrja ráðuneytið, sem getur ekki svarað í fyrsta kasti, hvernig í ósköpunum þeir sem vilja fylgjast með fjárlögum ríkisins eigi að geta gert það.

Maður er að fjalla um eitthvað sem er búið og í sjálfu sér afgreitt og lítið hægt að gera við, nema helst læra af því sem kemur fram, og hversu miklum tíma á að eyða í það. Ég held að til dæmis væri mjög til bóta að hafa í fylgiskjali 2, með frumvarpinu eru fylgiskjöl 1 og 2, a.m.k. einn dálk í endann þar sem koma fram heimildir að frádregnum niðurfellingum og hvað er svo fært yfir, í staðinn fyrir að vera með þetta í tvennu lagi og maður sér lokastöðuna í raun á hvorugum staðnum. Ég hefði viljað sjá, af því að nú eru þetta ekki síðustu lokafjárlögin sem verða sett fram á þennan hátt, þau eiga líklega eftir að koma fram tvisvar enn, að gerðar yrðu breytingar til að gera lokafjárlögin læsilegri. Það er alltaf vísað í það lagafrumvarp sem hefur verið í vinnslu um fjárreiður ríkisins en ekki tekið gildi og menn ættu frekar að reyna að vinna eftir þeim hugmyndum.

Ég spurði ráðherra spurninga áðan sem hann gat ekki svarað. Reyndar hefur ráðuneytið ekki heldur getað svarað því. Það er auðvitað að mörgu leyti athugunarvert að frumvarpið sé tekið fyrir í fjárlaganefnd áður en búið er að mæla fyrir því. Það væri áhugavert að vita hvort slíkt hefur verið gert með svona frumvarp áður.

Maður veltir fyrir sér til dæmis af hverju fjárheimildir eru fluttar á milli ára, hvers vegna það er gert á þennan hátt, og í sjálfu sér fær maður ekkert yfirlit yfir það. Er einhverjum verkefnum ólokið eða hvað veldur því að flutt er á milli ára, þetta eru oft sömu liðir ár eftir ár? Við kannski höfum lítil tækifæri til komast að því hvers vegna þetta er svona, enda erum við alltaf að fjalla um þessi mál löngu seinna og ekkert hægt að gera til að hafa áhrif þau.

Eitt af því sem ég hef gagnrýnt töluvert er staða Vegagerðarinnar. Það kemur fram í þessu frumvarpi að það eru tæpir 2 milljarðar á framkvæmdalið Vegagerðarinnar. Ég velti fyrir mér: Hverju var frestað? Það kemur ekki fram og eflaust gæti maður leitað svara hjá Vegagerðinni. En svo er það líka neikvæð staða Vegagerðarinnar, þ.e. neikvætt bundið eigið fé. Það kemur meðal annars fram hjá ríkisendurskoðanda þar sem hann fer yfir ríkisreikninginn að þar er neikvætt eigið fé bundið um 17,3 milljarða í árslok 2013 og nú þegar er farið, eins og hér hefur margoft verið rætt, að draga það frá framlögum Vegagerðarinnar. Ég veit ekki til þess að aðrar stofnanir hafi lent í því að þetta sé álitið sem skuld við ríkið, að þingið hafi svo sannarlega aðkomu að því og taki ákvarðanir um að fara í tilteknar framkvæmdir en það sé fært á þennan hátt. Ekki er brugðist við ábendingum Ríkisendurskoðunar um það.

Í nokkrum tilfellum er halli afskrifaður án þess að það sé rökstutt, það er ekki alls staðar að finna skýringu í ríkisreikningunum. Það má svo sem velta því fyrir sér af hverju það er gert. Ég spurði hæstv. ráðherra áðan, og fékk ekki svör, um samræmi á milli höfuðstólsins samkvæmt frumvarpinu til lokafjárlaga og ríkisreiknings, af því að það á jú að staðfesta ríkisreikning. Tekið er fram á bls. 75, þar sem m.a. er fjallað um flugvelli og flugleiðsöguþjónustu, að samræmi eigi að vera þar á milli. Í fjáraukalögunum kom fram að gera hefði átt ráðstafanir til þess að þetta væri fært út úr ríkisreikningi 2015 en ekki hvernig ætti að gera það.

Svo er annað dæmi um mismun að staða Atvinnuleysistryggingasjóðs er sýnd til dæmis í ríkisreikningi sem bundið eigið fé en ekki á höfuðstól. Það eru mörg slík dæmi sem eru ekki færð á sama hátt. Ég spurði ráðuneytið um einn svona lið sem er að finna á bls. 76, sem á er landlæknir og Lýðheilsusjóður. Þar myndast mismunur vegna þess að Lýðheilsusjóður er gerður upp undir fjárlagalið landlæknis en er samt sérstakur fjárlagaliður. Það er eiginlega ekki nema fyrir þá sem hafa óskaplega mikinn áhuga eða geta grúskað mikið að átta sig oft á tíðum á stöðu margra þessara liða.

Einn af þeim er fjármála- og efnahagsráðuneytið. Þar er frávik vegna fjármálaliðarins 12-402 sem er Fjármálaeftirlitið. Þar var öllum mörkuðum tekjum liðarins á sínum tíma ráðstafað til hans og það kom fram sem betri afkoma og hækkun á höfuðstól. Fjárlögin höfðu gert ráð fyrir að 92 milljónum yrði haldið eftir í ríkissjóði, þannig að þar er ekki heldur samræmi. Það má auðvitað spyrja sig að því hvort ekki væri til bóta og öll framsetning skýrari ef búið væri að ganga þannig frá frávikum, eins og þeim sem ég hef rakið, að þau væru ekki til staðar. Ég hefði viljað að ráðherra svaraði því áðan þegar ég spurði hann um fylgiskjöl 1 og 2, hvort hann sæi fyrir sér að þar væri hægt að nota annars konar framsetningu, t.d. eins og ég nefndi, að bæta við einum lið þar sem maður sér þá niðurfelldar heimildir og lokastöðu og það sem færist svo yfir á næsta ár. Einnig væri áhugavert að vita það sem kemur ekki fram, þar sem 10% reglan gildir ekki, hvers vegna það er, af því að það er ekki alltaf skýrt í texta þessara lokafjárlaga.

Það sem mér finnst maður aðallega geta gagnrýnt svona í fyrsta kasti er framsetningin, hvort sem það eru lokafjárlög eða annað, fjárlagafrumvarpið er líka mjög ógagnsætt og erfitt að lesa sér til í því. Það er vont að þurfa að leggjast í útreikninga eða fyrirspurnir til þess að átta sig á stöðu tiltekinna liða. Ég held að hægt væri að gera mjög margt til þess að laga það án þess að það væri sérstaklega flókið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Mér finnst fyrst og fremst að það eigi að vera hægt að setja þetta fram skýrar og einfaldar, þannig að við getum í það minnsta lært af því sem við erum að fjalla um. Þótt ekki sé hægt að hafa áhrif á fjárhæðir eða annað slíkt sem hér er gætum við a.m.k. nýtt tækifærið til að fara í gegnum hvers vegna, hvort það eru alltaf sömu stofnanir eða sömu liðir í ríkisreikningi sem er ýmist verið að fella niður af eða færa umfram yfir ár hvert. Ég held það mundi auka hið faglega eftirlit fjárlaganefndar.