144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[18:02]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta andsvar eða hvað á að kalla þetta hjá hv. þingmanni hefði kannski frekar átt heima í óundirbúnum fyrirspurnum en við umræðu um þá þingsályktunartillögu sem ég var að mæla fyrir. Engu að síður er ég búinn að fá þessar spurningar og ég mun reyna að svara þeim eftir bestu getu.

Það er nú þannig, og hv. þingmaður veit það, og held ég alþjóð, að innan Framsóknarflokksins hafa frá upphafi EES-samningsins verið mjög skiptar skoðanir um þann samning, það er ekkert nýtt í því. Það er ekkert nýtt í því að framsóknarmenn hafi alls konar skoðanir á þessu máli eins og öðrum. Framsóknarflokkurinn hefur hins vegar ekki ályktað um að segja eigi upp EES-samningnum eða eitthvað slíkt og ég veit ekki til þess að áform séu um neitt þess háttar, enda er sá samningur í dag aðgöngumiði okkar inn á innri markað Evrópusambandsins.

Varðandi það hvort ráðherrann sé pirraður á EES-samningnum sem slíkum þá er hann ekki pirraður á honum, en ég tek hins vegar undir þau sjónarmið að það mætti gjarnan vera þannig að gerðir og annað sem kemur frá Evrópusambandinu inn í þennan EES-samning mætti — það þarf ekki að vera að skipta sér af öllu, við skulum frekar orða það þannig. Þau sjónarmið eru reyndar uppi innan Evrópusambandsins líka. Við sjáum að það er markmið hjá Evrópusambandinu að fækka reglusetningum, fækka gerðum. Ég man ekki alveg tölurnar en mig minnir að það sé eitthvað á þá leið að menn ætli að fækka gerðum úr 160 á ári niður í 100, eitthvað slíkt, og fagna ég því mjög. Það er í mjög í anda þess sem ég hef talað fyrir.

Varðandi þýðingarnar þá er þýðingamiðstöðin í utanríkisráðuneytinu að gera mjög góða hluti, þau standa sig vel undir mikilli pressu yfirleitt. Það er hins vegar ekkert að því að menn velti því upp hvort og hvernig orð eru notuð. Það er til dæmis dæmi um það úr þýðingamiðstöðinni þegar menn voru að velta því fyrir sér hvort nota ætti orðið „shall“ eða „should“ þegar verið væri að innleiða eða þýða ákveðna hluti. Farið var í greiningu á því hvernig það yrði gert. En það er hins vegar þannig, svo að því sé nú haldið til haga, að þegar kemur að útfærslu á (Forseti hringir.) þessum gerðum þá eru það fagráðuneytin sjálf sem fara með þær útfærslur. Og þar er hægt að nota orðalag með skapandi hugsun eins og ágætur maður sagði.