144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 88/2014 um breytingu á XIII. viðauka við EES-samninginn.

516. mál
[18:06]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður er að tala um tvo hluti. Annars vegar er verið að tala um þær þýðingar sem fara fram á þeim gerðum sem berast eða koma inn í samninginn sem þýðingamiðstöðin sér um að þýða og hins vegar hvernig sú þýðing eða sú gerð er leidd í íslensk lög.

Við höfum margoft séð að fagráðuneytin hafa svigrúm í textagerð og slíku um það hvernig ákveðin atriði eru innleidd í íslenska löggjöf. Við höfum líka dæmi um það frá utanríkismálanefnd, að hún hafi gert athugasemdir og tillögur að breyttu orðalagi o.s.frv. við lagatexta sem byggir á ákveðinni gerð. Við erum því að ræða hér um tvenns konar hluti.

Þegar ég tala um skapandi hugsun er ég vitanlega að vísa til þess sem við höfum gert, meðal annars á meðan sá er hér stendur sat í utanríkismálanefnd, og er alþekkt að menn geri. Frá fagnefndum þegar við sendum þessar gerðir þangað hafa komið athugasemdir um orðalag og annað. Í grunninn ber okkur að sjálfsögðu skylda til að ná fram markmiðum þeirra gerða sem við erum að innleiða en mjög oft er svigrúm í texta hvernig það er gert.