144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:38]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Vissulega er það svo, ekki bara í þessu máli heldur svo oft þegar við ræðum stórmál hér á vettvangi þingsins, að það þarf að skoða hin þjóðhagslegu áhrif. Þá vitna ég til þess sem hv. þingmaður nefndi um umhverfiskostnaðinn, landrýmið og annað slíkt sem við tökum kannski ekki alltaf með í dæmið þegar við tölum um kostnað framkvæmda. Það er rétt að það er ekki inni í þeim kostnaði sem ég nefndi áðan sem slegið hefur verið á lestarsamgöngur á milli Reykjavíkur og Keflavíkur. En það þarf að meta hvort það gæti verið þjóðhagslega hagkvæm fjárfesting. Ég man eftir því þegar við ræddum hér síðast breytingar á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna þar sem ég lagði til að hluti lána mundi breytast í styrk. Vissulega var það kostnaður fyrir ríkið, en líklega ótvíræður þjóðhagslegur sparnaður, ávinningur sem erfitt er að leggja mat á og við, stjórnsýslan, höfum því miður ekki haft mikil tök á að leggja í kostnað við að reikna hann út. Það þyrfti auðvitað að gera í þessu tilfelli.

Ef af yrði að menn mætu þetta þjóðhagslega hagkvæma framkvæmd, hagkvæma fyrir umhverfi og samfélag, þá teldi ég að sjálfsögðu að það væri ríkisins að standa að einhverri slíkri framkvæmd milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Það gæti ekki verið sveitarfélaganna að horfa til þess því að þetta er auðvitað þjóðbraut og mikilvægasta samgönguæðin inn í landið, þannig að að sjálfsögðu þyrfti að horfa til ríkisins um slíka fjárfestingu til lengri tíma.