144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:56]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að það eru allar líkur til þess að það mundi alla vega flýta fyrir málinu og gera það mögulegra að ríkið kæmi myndarlega að. Ég held að það sé í raun í fullu samræmi við það hvernig við högum vegamálum á höfuðborgarsvæðinu nú þegar. Vegagerðin og ríkið reka stóran hluta af stofnbrautasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, og reyndar síðustu árin, sem er mjög ánægjulegt og hefur komið myndarlega inn í almenningssamgöngurnar og sömuleiðis uppbyggingu á göngu- og hjólreiðastígakerfi á höfuðborgarsvæðinu. Það er mjög jákvætt.

Ég held að höfuðborgarsvæðið hafi að sumu leyti orðið út undan í stærstu byltingunum og átökunum sem hafa orðið í vegamálum á Íslandi síðustu 15–20 árin. Það er kannski ekki skrýtið þar sem við höfum einbeitt okkur að stórvirkjum í vegakerfi á landsbyggðinni. Það er engin spurning í mínum huga að við erum komin með borgarsamfélag þar sem landrými er ekki lengur óendanlegt og allar breytingar sem gera landsvæði dýrmætari leysa líka úr læðingi heilmikil verðmæti sem hægt væri að sjá fyrir sér að hægt væri að nýta í svona uppbyggingu.