144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[18:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Það er rétt sem þingmaðurinn bendir á að það er auðvitað ríkið sem fjárfestir í stofnbrautunum á höfuðborgarsvæðinu, eins og úti um landið, og það væri sömuleiðis eðlilegt um almenningssamgöngur. Því miður hefur ríkið verið fremur tregt þangað til á síðasta kjörtímabili að leggja fjármuni til almenningssamgangna.

Við höfum nýlega séð opinbera umfjöllun um hagkvæmniathugun á samgöngum milli flugstöðvarinnar og Reykjavíkur og þær stærðir eru þekktar. Ég geri ráð fyrir því að frá því að ég var í borgarstjórn að minnsta kosti hafi aftur verið skoðaðir kostir á sporbundnum samgöngum innan borgarinnar, hvort sem það væru léttlestir eða einhverjir aðrir mátar. Ég vil inna hv. þingmann eftir því hvaða athuganir hafa farið fram af hálfu borgarinnar á slíkum möguleika, sérstaklega léttlestarmöguleikanum. Er það eitthvað nýlega og getur hann frætt okkur um hvað hafi komið út úr því? Hafa það verið sjónarmið hjá borginni að það sem fyrst yrði raunsætt í þeim efnum eða helst væri raunsætt í þeim efnum væru einhvers konar léttlestarsamgöngur eða eru menn að velta fyrir sér öðrum kostum þar? Og sömuleiðis hvar skipulagsþáttur málsins er staddur, hvort það hafi á einhvern hátt verið gert ráð fyrir svona stofnleiðum í sjálfu skipulaginu, því að þótt ekki sé byrjað að fjárfesta í því eða búið að taka ákvörðun um framkvæmdir er fyrsta skrefið auðvitað að gera ráð fyrir möguleikanum til lengri tíma á skipulagi. Hefur það verið gert?