144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

athugun á hagkvæmni lestarsamgangna.

101. mál
[19:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vildi byrja á því að árétta þakkir mínar til flutningsmanna fyrir að setja þetta mál á dagskrá þingsins. Mikilvægasta verkefni okkar í hinu stóra samhengi á Íslandi er auðvitað að leita leiða til að minnka vistspor okkar sem kallað er, þ.e. draga úr þeirri mengun og þeim umhverfiskostnaði sem fylgir okkur og athöfnum okkar og daglegu lífi. Það er því miður þannig að ef allir jarðarbúar hegðuðu sér eins og við Íslendingar gerum þyrftum við hvorki fleiri né færri en 10 jarðir, 10 hnetti með tíföldum þeim auðlindum sem til ráðstöfunar eru á þeirri einu jörð sem við höfum til að búa á. Og til að tryggja að jörðin verði sjálfbær þurfa þjóðir sem lifa um efni fram í skilningi umhverfisins náttúrlega að draga úr umhverfisáhrifum sínum og leita allra leiða til að halda sér innan þeirra marka sem móðir jörð setur okkur.

Almenningssamgöngur eru mikilvægur hluti í því að leggja af mörkum þegar kemur að umhverfisáhrifum samgangna, útblæstri gróðurhúsalofttegunda þá sérstaklega. Almenningssamgöngur hafa líka margvíslega aðra samfélagsþætti í för með sér, þær eru líka hluti af því að vera vel skipulagt samfélag, vera samfélag sem er skilvirkt þar sem skipulagi er þannig háttað að auðvelt sé að komast leiðar sinnar og það séu tiltækir kostir fyrir fólk til að lifa og starfa á ódýran og hagkvæman hátt. Það að vera með öflugt almenningssamgöngukerfi er mikilvægur hluti af þeim lífsgæðum.

Hér bárust aðeins í tal fyrr í umræðunni ýmsar ólíkar leiðir í því, m.a. léttlestir, lest til Keflavíkur og jarðlest. Ég held að það sem er fagnaðarefni við þessa tillögu sé að flutningsmenn gera ráð fyrir því að kalla alla aðila að borðinu. Ég held að við, 0,3 millj. manna samfélag, getum ekki leyft okkur að ráðast í verkefni af þessari stærðargráðu, ef það yrði niðurstaðan, öðruvísi en þannig að við höfum tryggt að allir komi að því og við nýtum sem allra best alla þá krafta sem við höfum til þess. Það er nú einu sinni þannig með samgöngur að þær spila saman. Þær skipta máli, ekki bara í sveitarfélögunum heldur skipta þær líka ríkisvaldið máli, þær skipta máli á milli sveitarfélaga, þær skipta máli fyrir atvinnulíf og fyrirtæki og ólíkar gerðir samgangna þurfa að vinna saman. Dæmið um flugvallarlest er náttúrlega hvað skýrast um það, dæmi sem við þekkjum frá mörgum nágrannalanda okkar að hefur verið að færast sífellt í vöxt. Menn bæta flugsamgöngurnar með því að styrkja stofnleiðir að flugvöllum og greiða mönnum leið til og frá flugvöllum og þannig vinna ólíkar gerðir samgangna saman.

Það sem nefnt var áðan um jarðlestir er síðan ágætisdæmi um hið sama vegna þess að ég held, frómt frá sagt, að enn séum við ekki komin þangað að forsvaranlegt sé að ráðast í fjárfestingar í uppbyggingu á jarðlestakerfi, jafn gríðarlega fjárfrek og slík uppbygging er í innviðum. Ég hygg að minnsta þéttbýlissvæði sem hefur ráðist í slíka uppbyggingu sé enn þá Malmö með nærfellt 500 þúsund íbúa og enn eru á höfuðborgarsvæðinu ekki nema á þriðja hundrað þúsund íbúar, svo að það er trúlega nokkuð í land með að það sé yfir höfuð möguleiki sem við eigum að skoða hér. En lengi vel var það svo að menn töldu óhugsandi að fara með jarðlestir í þéttbýli sem væru minni en 1 milljón manna og nú er það komið niður í hálfa milljón og einhvern tíma mun það eflaust verða tiltækt fyrir samfélag sem hefur kvartmilljón eins og hér á höfuðborgarsvæðinu. En það hygg ég að sé lengra inni í framtíðinni.

Hins vegar eru ákveðin tækifæri tengd þeim jarðlestaleiðum sem tengjast einmitt því sem við höfum í vaxandi mæli verið að ráðast í á síðustu árum og það er gangagerð. Það er auðvitað þannig að menn hafa þróað leiðir og um leið og þeir leggja akveg á hagkvæman hátt hafa þeir gert ráð fyrir sporbundnum samgöngum við sömu framkvæmd. Þá er í raun og veru bara viðbótarkostnaðurinn sem fellur til sporbundnu samgangnanna. Ég held að eðlilegt sé að menn skoði það í tengslum við gangagerð á höfuðborgarsvæðinu. Hún mun verða meira og meira á dagskrá eftir því sem umferðin hér eykst og fólkinu fjölgar og þetta efnahags- og atvinnusvæði eflist og styrkist, sem við öll vonum. Þá verður meira og meira kallað eftir gangagerð á höfuðborgarsvæðinu og eru það leiðir sem jafnframt er hægt að nýta fyrir almenningssamgöngur.

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar í þeim efnum að það eitt og sér að búa til sporbundnar samgöngur á milli höfuðborgarinnar og Keflavíkur væri takmarkaður áfangi að ná vegna þess að eftir sem áður á fólk alltaf eftir að komast á þann punkt sem er hér í höfuðborginni, þ.e. það á eftir að ná í farþegana og koma þeim á staðinn og ef ekki eru tiltækar þokkalegar almenningssamgöngur innan borgarinnar er fólkið hvort sem er komið upp í bílinn og lagt af stað. Við sjáum það í borgum í kringum okkur þar sem góðar samgöngur hafa þróast til flugvallanna, hvort sem við horfum á Arlanda í Svíþjóð, til Heathrow-flugvallar, til Kastrup-flugvallar í Kaupmannahöfn eða annarra þeirra staða sem við Íslendingar leggjum helst leið okkar til. Þar hefur fyrst þróast sporbundið samgöngukerfi innan þéttbýlisins og síðan þegar það er orðin burðarflutningsleið í samgöngukerfi viðkomandi borgar styrkja menn og bæta samgöngurnar úr því kerfi við flugvöllinn. Þess vegna finnst mér það sérstakt fagnaðarefni að flutningsmenn gera ráð fyrir því að skoða þá hluti í samhengi, þ.e. möguleika á að þróa hér léttbeltasamgöngur yfir lengri tíma, hvort sem það væri ein lína yfir fjölförnustu leiðina á höfuðborgarsvæðinu eða eitthvert víðtækara kerfi sem mundi síðan tengjast aftur samgöngum út í Keflavík og gera fólki kleift að nýta hvort tveggja. Að skoða þetta saman held ég að sé sérstaklega áhugavert núna eftir að fram hafa komið frumniðurstöður úr athugun aðila á hagkvæmni þess að vera með samgöngur milli Reykjavíkur og Keflavíkur og flugvallarins. Ég hef fylgst nokkuð lengi með þessum málum, við fórum m.a. í nokkuð ítarlegar kannanir frá Reykjavíkurborg á möguleikum í þeim efnum í kringum aldamótin síðustu, árið 2000. Við fengum til að mynda til okkar yfirmann eða framkvæmdastjóra hins stóra alþjóðlega samgöngufyrirtækis Alstom, sem einmitt kom að flestum helstu lestarverkefnum undir lok síðustu aldar, þar á meðal nýju léttlestunum sem menn byrjuðu að leggja í Bandaríkjunum, í Portland, komu að Heathrow-lestinni, í Arlanda og fleiri stórum verkefnum.

Það kemur auðvitað á óvart að frumniðurstöður úr könnun á sporbundnum samgöngum á þessari leið, Reykjavík til Keflavíkur, geti borgað sig á viðskiptalegum forsendum, þ.e. á forsendum þeirra farþega sem fara þarna á milli. Þar er ekki verið að reikna inn í dæmið sparnað sem gæti orðið við að ekki þyrfti að reka tvo alþjóðlega flugvelli með svo stuttu millibili sem raunin er með Reykjavík og Keflavík og ekki er gert ráð fyrir því að nýta landið (Forseti hringir.) í Vatnsmýrinni til einhvers annars en undir flugvöllinn (Forseti hringir.) heldur borgi þetta sig á viðskiptalegum forsendum.