144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

upplýsinga- og sannleiksskylda ráðherra.

396. mál
[19:38]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er náttúrlega grafalvarlegt ef hv. þingmaður telur að það séu mýmörg dæmi um það á kjörtímabilinu að ráðherrar hafi sagt þinginu ósatt. Ég skildi þingmanninn þannig, hann sagði að vísu að „menn teldu“, ég skildi það að þar væri hann að vísa til sjálfs sín.

En ég spyr hins vegar um hið matskennda vegna þess að með því að láta þetta varða við lög um ráðherraábyrgð, ef ég skil rétt, fellur þetta í raun og veru undir landsdómsferlið og ákæruvaldið er þá þingið. Til að það reyndi raunverulega á að ráðherra væri dreginn til ábyrgðar fyrir að segja ranglega frá eða veita villandi upplýsingar þyrfti meiri hluti þingmanna að meta það að svo hafi verið. Er ekki viss hætta á því, meðan við búum við það fyrirkomulag sem hér er, að meiri hlutinn í þinginu hverju sinni mundi alltaf verja ráðherra sinn eða slá skjaldborg um hann eins og hefur verið rík söguleg hefð fyrir í stofnuninni? Ef þetta er rétt skilið held ég að minnsta kosti að ástæðulaust sé að hafa áhyggjur af því að ákvæðinu verði beitt of oft því að augljóslega þarf þann meiri hluta sem ráðherrann styðst við, liðsstyrk hans, til að það megi taka á ósannsöglinni. Annars komast menn hvorki lönd né strönd með málið.