144. löggjafarþing — 68. fundur,  18. feb. 2015.

efling virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur.

122. mál
[19:42]
Horfa

Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um eflingu virkniúrræða fyrir atvinnuleitendur. Fyrsti flutningsmaður er Ásmundur Friðriksson en auk hans eru 17 þingmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks flutningsmenn. Mál þetta var áður flutt á 143. löggjafarþingi.

Ég ætla að grípa aðeins niður í greinargerðina, forseti.

Nýjar tölur benda til að atvinnuleysi sé á undanhaldi og að sjá megi fram á bjartari tíma í efnahags- og atvinnumálum hér á landi. Mikilvægt er að búa þeim sem ekki hafa vinnu gott umhverfi þar sem þeir fá aðstoð við að finna sér nýja vinnu, fá atvinnutengda starfsendurhæfingu og virkniúrræði sem henta hverjum og einum og á meðan á atvinnuleit stendur er mikilvægt að menn geti haldið áfram að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til að ráðherra efli það starf sem nú þegar er fyrir hendi fyrir atvinnuleitendur og leitist jafnframt við að koma á nýjum virkniúrræðum í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Bandalag háskólamanna, Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins.

Á undanförnum árum hafa stjórnvöld staðið fyrir margvíslegum verkefnum og virkniúrræðum fyrir atvinnuleitendur. Um þörf og góð verkefni hefur verið að ræða og margir hafa notið góðs af en lengi má gott bæta og flutningsmenn telja að horfa þurfi til þess í auknum mæli að atvinnuleitendum verði einnig boðið upp á að stíga inn í ýmis störf sem unnin eru í samfélaginu öllu til góða og þar sem lengi má bæta við góðu fólki og gera gott starf betra.

Flutningsmenn tillögu þessarar horfa einkum til starfa á vegum sveitarfélaga sem tengjast samfélagslegum málefnum. Þá eru ýmiss konar sjálfboðaliðastörf fyrir frjáls félagasamtök sem vinna að góðum málum í þágu almennings. Í greinargerðinni er farið nánar út í um hvaða störf er að ræða til dæmis.

Nauðsynlegt er að mati flutningsmanna að nýttar verði lagaheimildir sem skylda atvinnuleitendur til að taka þátt í virkniúrræðum, það verði skilyrði greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði og framfærslu sveitarfélaga að atvinnuleitendur taki þátt í virkniúrræðum við hæfi og leggi á þau góða ástundun enda verði settar reglur um lágmarksvinnuframlag. Rétt er að atvinnuleitendur fái nokkurn tíma, tvo til fjóra mánuði til dæmis, til að leita nýrrar vinnu áður en skylda til þátttöku í virkniúrræðum verði virk og þá er að sjálfsögðu einnig gert ráð fyrir því að á meðan þátttaka í virkniúrræðum stendur verði atvinnuleitendur enn í leit að atvinnu við hæfi. Eðlilegt er að horft skuli til samfélagslega mikilvægra verkefna af þessu tagi fyrir þá atvinnuleitendur sem kjósa að fara ekki í nám og þá þarf einnig að huga að réttindum þeirra meðan á starfi stendur, svo sem tryggingum og hæfilegum greiðslum, og þá er eðlilegt að fólk sem stundar vinnu í gegnum virkniúrræði sem þessi njóti desemberuppbótar á ári hverju.

Flutningsmenn óska eftir að málið verði tekið fyrir í velferðarnefnd.