144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

sjávarútvegsmál.

[13:35]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður þarf ekki að óttast að ekkert muni gerast í sjávarútvegsmálum á kjörtímabilinu eins og hann orðaði það. Þótt hann sé eflaust brenndur af reynslu síðasta kjörtímabils og óttist að hlutirnir geti farið eins og þá er sá ótti hans ástæðulaus enda hefur verið unnin mikil og góð vinna undir forustu hæstv. sjávarútvegsráðherra sem mun nýtast jafnvel þótt málið verði ekki klárað á þessu tiltekna þingi. Hins vegar nefndi ráðherrann sérstaklega og ítrekaði það, þegar ljóst varð að málið yrði ekki klárað á þessu þingi, að hann mundi beita sér fyrir því og stjórnarflokkarnir í sameiningu að tryggt yrði að inn í stjórnarskrá kæmi ákvæði um þjóðareign á auðlindum.

Með öðrum orðum svara ég meginspurningu hv. þingmanns játandi. Það er mikilvægt að leysa úr þeirri stöðu sem uppi er í sjávarútvegsmálum og hefur verið í mörg ár með því að tryggja í stjórnarskrá þjóðareign á auðlindinni. Það verður megináhersla hjá hæstv. sjávarútvegsráðherra og ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður er sammála um mikilvægi þess.