144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

þjóðaröryggisstefna.

[13:55]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Til að svara spurningunni um varnarmálin þá er, eins og hv. þingmanni er kunnugt og öllum þingheimi, slíkt ákveðið með forsetaúrskurði. Ég held að sú skipting sem hefur verið uppi sé býsna góð og sé enga ástæðu til að breyta henni, hvar varnarmál eru vistuð o.s.frv.

Til að svara góðri spurningu hv. þingmanns um þjóðaröryggisstefnuna þá geri ég ráð fyrir að við náum að vera nokkuð á áætlun með það hvenær hún kemur inn í þingið. Þingsályktunartillagan er nánast tilbúin, kann að dragast eitthvað, ég ætla ekki að fullyrða um það. Byggt er á tillögu nefndarinnar sem ég og hv. þingmaður sátum í. Ekki er gert ráð fyrir þjóðaröryggisdeild eða auknum valdheimildum lögreglu í þeirri stefnu enda er það kannski ekki heldur tilgangur hennar. Það er hins vegar efni í allt annars konar umræðu hvort þess sé þörf. En í megindráttum byggir tillagan á vinnu nefndarinnar, stuðst er við þær hugmyndir sem þar komu fram. Það er vitanlega útfærsla á ákveðnum hugmyndum þar og tillögum, en í grunninn eru þetta tíu liðir sem lagt er upp með.

Jú, það er lagt til og stefnt að stofnun þjóðaröryggisráðs eins og við nefndum í okkar vinnu í þessari ágætu nefnd. Ég vona að þetta svari langleiðina þessari spurningu.