144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:40]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég vil nota seinna andsvarið til að taka undir mikilvægi þess að örnefni séu lifandi. Ég lít þannig á að sá rammi sem hér er markaður í frumvarpinu um örnefni sé að ýmsu leyti rýmri og sveigjanlegri en ramminn í lögunum sem þessi lög koma til með að leysa af hólmi, þ.e. lög um bæjanöfn. Sá möguleiki að í örnefnagrunn sé hægt að skrá fleira en eitt nafn á sama staðinn, sama svæðið, sama punktinn eða línuna, ef við notumst við skilgreininguna, er mjög mikilvægur til að örnefni haldi áfram að þróast. Það er samt auðvitað öryggisatriði að kort séu samræmd og þar birtist ein útgáfa af nöfnum. Það getur verið ákvörðunaratriði á hverjum tíma hvaða nafn það er.

Er einhvern tíma hægt að segja hvað sé rétt nafn? Við þekkjum væntanlega umræðuna um árnar á norðausturhorninu sem heita margar Hölknár, hvort þær heiti Hölknár eða Höltnár, það er sígilt umræðuefni. Svo er fjall á sveitamörkum sem ýmist heitir Röndólfur, Slöttur eða Þokustrákur eftir því hvaðan er horft á það. Það er lykilatriði að löggjöfin sé rammi utan um þessi menningarverðmæti en leyfi áfram lifandi umræðu um landið og heitin sem þar verða til.

Þá er kannski bara ein spurning að lokum: Vitið þið hvar Batmanfjall er?