144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:44]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef sagt það við fyrri umræðu þessa máls að þetta er sennilega merkasta málið sem rekur hefur á fjörur þingsins og þá undanskil ég ekki sjötta dagskrármál þingsins síðar í dag.

Mörg okkar, jafnvel þau sem tekst að vera fullu feti framar við tilvistarangistina endranær, veltum því samt oft fyrir okkur til hvers menn eru á þessu ferðalagi. Það er gjarnan svo að við lok þess horfa menn yfir farinn veg og gera upp. Ég minnist þess að þegar ég hafði verið sennilega tíu ár á þingi og tvö ár sem ráðherra þá leit ég til baka og velti fyrir mér hvað lægi eftir mig og komst að þeirri niðurstöðu að það væri hugsanlega eitt klósett á Hornströndum. En það verður ekki sagt um hv. þm. Steingrím J. Sigfússon að hann hafi lifað til einskis. Maður sem búið hefur til hringsjá á Gunnarsstaðaásnum, hann hefur lifað, ég tala nú ekki um ef það hefur orðið til þess að bjarga eða festa til langrar framtíðar 100 örnefni.

Ég er sammála hv. þingmanni og þeim sem hér hafa talað um að örnefni eru gríðarleg verðmæti og þau fortapast mjög hratt. Af því ætla ég að segja litla reynslusögu. Það vildi svo til að mér var komið til uppeldis mjög ungum hjá góðu framsóknarfólki á Mýrum. Þar var ég lengi. Og hafi einhvern tíma ræst úr mér þá var það undir handarjaðri Framsóknarflokksins. Þar hét hver þúfa nafni og ég festi þau mér mjög í minni og get jafnvel enn þann dag í dag lesið mig eftir landslagi þar út frá þessum örnefnum.

Löngu síðar komst ég yfir örnefnakort sennilega frá 3. áratugnum af þessari sömu jörð og bar þá svo við að ég þekkti fæst örnefni. Og meira að segja mjög skýr kenninefni í landslagi, sem notuð voru til dæmis til að setja niður laxalagnir, hétu allt öðrum nöfnum. Svona fortapast allt og þess vegna segi ég: Það þarf að gera gangskör að því með skipulegum hætti að safna örnefnum á vorum tímum.