144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Þó það nú væri. Ég tel að það sé mjög mikilvægt viðfangsefni að gera rek að því að safna örnefnum með skipulögðum hætti. Þær umræður sem hér hafa orðið millum tveggja hv. þingmanna, Steingríms J. Sigfússonar og Líneikar Önnu Sævarsdóttur, um Siglfirðinga og Reykdælinga og hvernig menn vinna að því að safna örnefnum þar hjá öldruðum Íslendingum, er til fyrirmyndar. Hvernig höfum við reynt að setja í bagga og geyma arfleifð úr fortíðinni? Nákvæmlega með þeim hætti að gera út fólk sem gengur bókstaflega fyrir dyr aldraðra Íslendinga og kroppar úr huga þess hvers konar vitneskju, bæði um munnmæli, um gamlar sagnir og því ekki um örnefni líka? Ég held að það væri ákaflega mikilvægt.

Það sem ég var að reyna að koma til skila í minni örstuttu existensíalísku ræðu hérna áðan er að það er ekki bara að örnefni fortapist heldur er sennilega ekkert sem hefur breyst jafn mikið frá landnámi og örnefni og orpist sandi tímans þannig að ekki verður séð.

Í reynd var kjarninn sem fólst í þessari örstuttu sögu minni áðan eftirfarandi:

Hér á tímum fyrr þegar ekki voru til góð kort sem menn gátu fært inn á örnefni og átt, hvað þá að geyma þau með öðrum hætti, þá hugsa ég að það hafi gerst ákaflega oft að orðið hafi gagnger skipti á jörðum og þá hafi flust burt fólk, ég tala nú ekki um undir lok 19. aldar þegar menn fóru úr heilum héruðum og skildu ekkert eftir, ekki einu sinni örnefnin. Þeir sem fluttu síðan á þessar jarðir þurftu stundum að byrja á því að nefna mörg kennileitanna upp á nýtt fyrir utan kannski hin allra helstu. Það er til marks um það, að ég hygg, að svona haldi þetta áfram að týnast nema menn vinni með skipulegum hætti að söfnun og skráningu.

Af því menn gleymdu að svara spurningunni hérna áðan hvað gæti verið Batmanfjall þá hlýtur það auðvitað að vera Brunnhorn í Lóni.