144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

örnefni.

403. mál
[14:51]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú hin ágætustu og skemmtilegustu skoðanaskipti. Það er ánægjulegt að ræða þetta sérstaklega vegna þess að hér er engum ágreiningi fyrir að fara heldur er frekar eldmóður í mönnum að gera betur í þessum efnum. Ég held að næsta vers sé að í framhaldi af afgreiðslu þessa máls taki menn það fyrir undir forustu hv. þingnefndar eða einhvers staðar hvort ekki þurfi að setja einhverja áætlun í gang um að hraða og efla þessa skipulögðu skráningu og söfnun. Það er gríðarlega jákvætt og gaman að fylgjast með sjálfsprottnu framtaki þar sem það er í gangi. Ég held að reynslan af því sé í öllum tilvikum sú sama, að menn fá þá tilfinningu að það megi ekki seinna vera og sé kannski í raun og veru of seint af stað farið, en þó betra en ekki. Það er að minnsta kosti það sem ég hef heyrt frá þeim mönnum sem hafa verið að vinna að þessu á ýmsum stöðum á landinu og það er reynsla mín sömuleiðis að í sjálfu sér geti bara tíu ár skipt heilmiklu gagnvart því að ná í það fólk sem enn býr yfir vitneskjunni og þekkingunni.

Það er nú svo þegar við hugsum um menningararf Íslands að við eigum ekki miklar miðaldabyggingar, kastala og hallir úr steini eða rammgerðum efnum sem stóðust tímans tönn, en við eigum alveg gríðarlegan munnlegan menningararf af fjölþættum toga. Margt hefur auðvitað verið vel gert við að reyna að bjarga honum, svo sem eins og söfnun Þjóðminjasafnsins á sögnum og kveðskap og söngvum og dönsum, og hljóðupptökur Þjóðminjasafnsins eru auðvitað ómetanlegur fjársjóður, en það var gert af litlum efnum. Okkur er miklu síður vorkunn í dag að standa sómasamlega að málum. Örnefnin eru mjög mikill hluti af þessu. Þau eru í raun og veru ein af undirstöðum þess að njóta sagnaarfsins. Það væri lítið gaman að lesa Sturlungu ef enginn þekkti lengur örnefnin sem þar koma við sögu.