144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Þorsteinn Sæmundsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Það kemur fram í nefndarálitinu að samþykkt eða synjun kerfisáætlunar af hálfu Orkustofnunar er kæranleg stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar raforkumála á grundvelli 1. mgr. 30 gr. raforkulaga. Hér segir að úrskurðarnefndin sé sjálfstæð í störfum sínum, samanber 10. mgr. sömu greinar, en unnt sé að bera úrskurð hennar undir dómstóla innan sex mánaða frá því að aðila var birtur úrskurðurinn, bæði sé hægt að kæra samþykkta kerfisáætlun í heild eða einstaka hluta hennar, t.d. einstaka fyrirhugaða framkvæmd innan hennar og afmarkaða þætti. Síðan er ýmist hægt að kæra ákvörðun Orkustofnunar um að samþykkja eða synja samþykkt kerfisáætlunar að efni til eða formi. Ég tel því að þetta sé nokkuð skýrt.

Hvað varðar hugsanlega skaðabótaskyldu ríkisins tel ég af og frá að hún myndist og ég held að engin ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því að til slíks komi. Við þekkjum það náttúrlega að svo virðist sem einstaka framkvæmdir í línulögn á Íslandi hafi verið í kyrrstöðu, svo að maður orði það nú þannig, árum saman, sem veldur okkur ómældum skaða, ekki bara núna heldur töluvert inn í framtíðina. Það er því ekki að ófyrirsynju að þessi mál séu einfölduð svo að hægt sé að gera þau þannig úr garði að komið sé í veg fyrir að einstök sveitarfélög eða einstakir hagsmunaaðilar dragi úr möguleikum á því að flytja raforku á öruggan hátt um landið.