144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað, eftir að hafa hlustað á fyrst nefndarálit meiri hlutans og síðan það nefndarálit sem hér var flutt, en tekið undir með hv. þingmanni sem talaði áðan, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur, að það er alveg á mörkunum að frumvarpið sé boðlegt, þetta er ekkert vanalegt frumvarp. Þetta er frumvarp sem tekur til mjög viðkvæmra þátta sem hafa orðið uppspretta mikilla deilna í íslensku samfélagi og við þurfum að ganga mjög varlega um hvað eina sem tengist þeim málaflokki.

Ég heyrði á andsvörum millum hv. þingmanns og hv. þm. Þorsteins Sæmundssonar sem mælti fyrir meirihlutaálitinu að meira að segja eru áhöld um hvort yfir höfuð séu til leiðir til þess að kæra úrskurð sem varðar grunnkjarna þessa máls. Ef þær eru til liggur heldur ekki á ljósu með hvaða hætti hægt er að gera það. Ég tek því undir þá ósk hv. þingmanns að nefndin sem fjallar um málið gefi sér góðan tíma millum 2. og 3. umr. til að fara yfir það. Þetta er auðvitað torf og helsvört latína fyrir þá sem koma að málinu. Ég verð að viðurkenna að ég skildi þetta ekki algjörlega til fulls.

Til að skýra aðeins út fyrir mér kjarna málsins langar mig til að spyrja hv. þingmann eftirfarandi spurningar:

Nú er það svo að landinu er skipt í sveitarfélög. Ef flutningsfyrirtæki vill leggja línu yfir hálendið en einhver sveitarfélög eru á móti því, má þá segja að grunnkjarni málsins sé sá að til þess að skera úr þeim ágreiningi, ef það er ekki gert innan ákveðins tíma, að það sé bókstaflega tryggt að vilji stjórnvalds eftir atvikum eða flutningsfyrirtækis, ráði að lokum? Er ég að skilja þetta rangt eða rétt?