144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:54]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. þingmanni að þetta er mikið torf og ekki auðmelt efni, hvorki fyrir hann né mig eða aðra leikmenn. Þess vegna tel ég vera enn brýnna að við hlustum á fagaðila, Skipulagsstofnun, Landvernd og samtök sveitarfélaga sem hafa komið með mjög málefnalega gagnrýni á málið og að það sé ekki fullbúið. Eins og ég skil þetta gengur þessi kerfisáætlun, eftir að hafa verið samþykkt af Orkustofnun, fram fyrir skipulagsvald sveitarfélaga og sveitarfélögin verði að taka tillit til þess innan fjögurra ára, þá þriggja ára framkvæmdaáætlun sem flutningsfyrirtækin leggja fram í skjóli þessarar kerfisáætlunar og breyta skipulagi sínu í samræmi við það. Ég get ekki séð annað en það þýði að þá sé í raun og veru verið að þröngva þeim ákvörðunum inn á sveitarfélögin hvort sem þeim líkar það betur eða verr.

Það er líka óljóst með kæruleiðir, tel ég, það hlýtur að vera innstæða fyrir þeirri gagnrýni í umsögnum þeirra aðila sem ég nefndi áðan og hv. framsögumaður nefndi að hægt væri að kæra úrskurð Orkustofnunar til úrskurðarnefndar raforkumála. Hvað verður gert með þá niðurstöðu skal ég ekki segja, en hvort það dugar til veit ég ekki. Mér finnst að þetta þurfi að skýra miklu betur áður en menn fara að afgreiða svona stór mál sem svo margt er óljóst um hvað varðar ákvörðunarvald sveitarfélaga. Ég tel ekki vera nægilega skýrt að það sé sá farvegur sem uppfyllir þau skilyrði sem ég tel að þurfi að vera.