144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[15:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í galskap núverandi hæstv. ríkisstjórnar er kannski ekki hægt að gera sanngjarnar kröfur um að það sé einhvers konar system í því. Ég tel að í svona flóknum málaflokki sem teygir sig út yfir allar ríkisstjórnir og mun hafa áhrif langt inn í framtíðina verði alla vega að vera system í galskapnum. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það hlýtur að þurfa að skýra löggjöf sem er þannig að hver stofnunin og hver samtökin á fætur öðrum sendi inn umsagnir og kvarti undan því að það sé ekki nægilega skýrt, hvað þá í gadda slegið hvernig á með að fara þegar ágreiningur rís. Við vitum að ef eitthvað er ljóst í þessari veröld þá er það að ágreiningur mun alltaf rísa um þessi mál. Þau eru bara þannig. Það er ekkert óeðlilegt við það. Þetta eru málefni þar sem miklir hagsmunir togast á og líka miklar tilfinningar og fullkomlega eðlilegt að ágreiningur rísi um það þegar menn vilja og hugsanlega telja að nauðsynlegt sé að spilla landi með því að leggja þar yfir línur. Þá er alla vega lágmark þegar niðurstaða kemur í það mál að hún sé fengin með þeim hætti að menn telji ekki að það hafi verið rangt gefið í upphafi.

Þó að ég sé kannski ekki að öllu leyti sammála viðhorfum hv. þingmanns verður þetta að vera skýrt og það gengur ekki að leggja fram svona djúptækt frumvarp sem bókstaflega er ágreiningur um af hálfu opinberra stofnana um hvernig ber að túlka. Það er bara ekkert hægt.

Síðan er það auðvitað mjög umhendis að þegar fyrir liggur að bæði sveitarfélög og landeigendur gera alvarlegan ágreining um frumvarpið. Menn sögðu það nokkuð skýrt varðandi Reykjavíkurflugvöll að þeir vildu ekki að verið væri að kássast upp á annarra manna jússur. Ég vil vera samkvæmur sjálfum mér í því máli og segi skýrt: Fyrir mér er skipulagsvald sveitarfélaganna nánast heilagt.