144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar og get að mörgu leyti tekið undir þær efasemdir sem komu fram hjá henni og sömuleiðis hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.

Mér virðist við fyrstu sýn að grunnhugmyndin með málinu sjálfu sé góð en að útfærslan sé verulegum annmörkum háð. Ég held að engum blöðum sé um það að fletta að eins og málið stendur sé ríkisvaldið að taka til sín miklu meira vald í þessum efnum en góðu hófi gegnir. Það er kunnara en frá þurfi að segja að þeir sem leggja línurnar vilja gjarnan gera það á ódýrasta og auðveldasta máta. En fleiri sjónarmið þurfa að vera undir, það eru sjónarmið sem helst koma fram í nærsamfélaginu, í sveitarfélaginu, í því sem lýtur að skipulagsþættinum. Hér er að mörgu leyti kannski ekki ólíkt farið og er um samgöngumál sýnist mér.

Við þekkjum fjölmörg dæmi þess að Vegagerðin, þ.e. ríkið sem Vegagerðin í því tilfelli, vill fara með vegi í gegnum sveitarfélög. Um það hvernig þeir eru lagðir í landi, hvort þar eru mislæg gatnamót, eins og dæmin frá Vogum eru um, eða hringtorg, eins og var í Hafnarfirði, eða um aðrar slíkar útfærslur, geta verið gild sjónarmið sveitarfélaganna og nauðsynlegt að ríkið þurfi að semja við þau um það hvernig lagningu er háttað um þeirra land.

Ég spyr hvort hv. þingmaður teldi það ekki eðlilegra fyrirkomulag eða status fyrir löggjöf af þessu tagi að hún hefði svipaða stöðu og samgönguáætlunin, þ.e. væri áætlun ríkisins um þær framkvæmdir sem ætti að fara í en síðan þyrfti að semja við sveitarfélögin um útfærslu.