144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[16:48]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér við 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65 frá 2003. Ég vek athygli á því að þau eru frá 2003, með síðari breytingum, um svokallaða kerfisáætlun.

Þetta mál snýst að meginhluta um að taka upp 22. gr. raforkutilskipunar ESB í íslensk lög. Það hefði kannski verið betra að gera það fyrr, en það var ekki gert. Ýmsir hafa líka efasemdir um hvort raforkutilskipun Evrópusambandsins hefði nokkurn tíma átt að leiða í lög hér á Íslandi. Ég var einn af þeim og hef haft þá skoðun að tækifærið sem okkur gafst þá hafi ekki verið notað til að fá undanþágu frá ýmsum atriðum. En hlutirnir breytast svo hratt að nauðsynlegt kann að vera að taka þetta upp og ég held að svo sé núna.

Ég hef hlustað með athygli á 2. umr., það sem þar hefur komið fram, og hún hefur verið bæði fróðleg og gagnleg. En ég verð að segja eins og er að það hefði verið betra að margt af því hefði komið fram við 1. umr. málsins; 1. umr. málsins var nefnilega mjög stutt. Ef ég man rétt — ég var ekki sjálfur hér þegar það var, ég var fjarverandi — tóku einungis tveir þingmenn þátt í þeirri umræðu og iðnaðarráðherra veitti nokkur andsvör, það var nú öll umræðan. Síðan kom þetta mál til atvinnuveganefndar strax þar á eftir og var þá sent út til umsagnar með venjubundnum hálfsmánaðar umsagnarfresti, sem mér er ekki kunnugt um að neinn hafi kvartað yfir, en margar umsagnir bárust.

Af því að umsagnir frá meiri og minni hluta hv. umhverfis- og samgöngunefndar hefur líka borið á góma þá fór þetta á sama tíma þangað og ég verð að segja eins og er að ég frétti fyrst af því í dag og sá fyrst í dag þær umsagnir sem komu í nefndaráliti hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur. Þar birtast umsagnirnar frá báðum aðilum og ég hlustaði á hv. þingmann flytja mál sitt áðan og lesa þessar umsagnir. En ég vil líka segja eins og er, með fullri virðingu fyrir viðkomandi nefnd, að mér finnst þetta frekar seint fram komið. Ég hefði viljað sjá þetta fyrr. Ég hefði til dæmis viljað kveikja á þeirri peru, sem hv. þm. Katrín Júlíusdóttir ræddi um við mig í morgun, í nefndaráliti minni hlutans, þar sem talað er um að þessa kerfisáætlun ætti kannski að skoða og hún að fá jafn mikla umfjöllun og samgönguáætlun. Það er afar athyglisverð tillaga, finnst mér, en hún er frekar seint fram komin.

Mér er ekki kunnugt um — og ég held að ég hafi setið eiginlega alla fundi í atvinnuveganefnd þar sem þetta hefur verið rætt, sem eru 13 fundir bókaðir, þar sem búið er að samþykkja fundargerð, og að mig minnir fjórir fundir þar í viðbót nú í febrúarmánuði. Nefndin hefur því haldið alls 17 fundi en að sama skapi sé ég líka að hv. umhverfis- og samgöngunefnd hefur tekið þetta fyrir á tveimur fundum þar sem fundargerðir hafa verið birtar. Það kann að vera að það hafi verið rætt á fleiri fundum í fundargerðum sem ekki er búið að samþykkja, ég ætla að hafa þann fyrirvara.

Eins og ég sagði þá finnst mér þetta afar athyglisverð tillaga sem þarna kemur fram um að þessi kerfisáætlun, tíu ára áætlun til langtíma, þriggja ára til styttri tíma — við þekkjum samgönguáætlun, langa áætlun og svo stutta áætlun sem kemur inn á tveggja ára fresti og fær hér þinglega meðferð, það er afar athyglisvert. Ég segi hins vegar, vegna þess að ég skrifaði undir meirihlutaálitið með fyrirvara, að ég er ekki sammála því að það taki gildi, ef meiri hluti væri fyrir því, núna strax og ég skal rökstyðja hvers vegna. Það er vegna þess að á erfiðleikatímanum okkar frá 2008, frá hruni, hafa kerfisfyrirtækin, Landsnet og aðrir, lítið sem ekkert gert í byggingu á raflínum. Í mörg ár hefur ekkert verið gert sem er út af fjárhagslegum erfiðleikum og líka að þörfin hefur kannski ekki verið fyrir hendi. En það eru dýr ár að baki sem hafa liðið. Ég get til dæmis sagt fyrir mitt leyti sem þingmaður Norðausturkjördæmis, sem hefur farið um í kjördæmaviku og þar á meðal hitt sveitarstjórnir, að það er algjörlega nýtt fyrir mér að sveitarstjórnir skuli kvarta yfir því að almennir notendur og atvinnufyrirtæki á staðnum, eða eftir atvikum hugsanleg ný atvinnufyrirtæki sem vilja koma til viðkomandi staðar, geti ekki fengið raforku vegna þess að ekki er hægt að flytja hana til viðkomandi staðar.

Á ég að nefna Egilsstaði? Á ég að nefna Akureyri? Já, ég get gert það. Ég get bætt Dalvík við og ég get bætt við mínum heimabæ, Siglufirði. Það kom mjög á óvart að ekki væri hægt að byggja þar upp ákveðna atvinnustarfsemi vegna þess að orku væri ekki að fá. Það sýnir okkur — hvort sem okkur líkar betur eða verr, og ég tek það skýrt fram að það skal ganga um það með mikilli gát að leggja línur. Það er kannski eitt af því allra ljótasta við mikla atvinnuuppbyggingu, sama hvort það er stóriðja eða minni fyrirtæki, þessi stóru og miklu flutningsvirki á loftlínum, stór og mikil möstur, oft og tíðum tvö sett, hvernig þau liggja, það er mesti lýtirinn að þessu hvað varðar umhverfið að mínu mati. Ég kann ekki að nefna staðinn hér uppi á Hellisheiði — ég kann ekki það örnefni, það kom ekki fram í umræðunni um örnefni áðan — þar sem hægt er stoppa og horfa þar yfir skóg af raforkumöstrum hér í nágrenni höfuðborgarinnar. Það er ekkert mjög fallegt.

Við verðum því að skoða þetta frumvarp um kerfisáætlun með þeim kostum og göllum sem þar eru. Kostirnir eru þeir að loksins sé verið að taka þetta inn, það hefðum við átt að gera fyrr, en það getur vel verið að hér séu einhverjir gallar sem meðal annars snúa að stjórnsýslu. Ég ætla að reyna að koma að því á eftir ef ég hef tíma. Þá verðum við líka að horfa á þingsályktunartillögu um raflínur í jörð og nefndarálit atvinnuveganefndar um raflínur, þar sem við meðal annars hækkum margföldunartöluna úr 1,5 í 2 og tökum inn stofnkostnaðarverð og hnykkjum þar á ýmsum þáttum sem fjalla ekki um kostnaðarmatið heldur um aðra þætti. Ég vil nota ferðina hér og segja að þetta kostnaðarviðmið, þetta kostnaðarmat, sem nefndin er að hækka úr 1,5 í 2 — ásamt því að verð á jarðstrengjum er að lækka, meðal annars út af því að vörugjöld voru felld niður og út af því að verð er að lækka erlendis, af því að fyrirtæki sem framleiða svona strengi hafa verið dæmd fyrir samkeppnisbrot fyrir verðsamráð um verðlagningu á jarðstrengjum. Við þekkjum svona verðsamráð, hvernig þau gerast hér á Íslandi, og þarna hafa fyrirtæki verið dæmd. Vonandi lýkur því verðsamráði og meiri samkeppni verður á sölu á þessum strengjum þannig að þetta er að lækka.

Það er nauðsynlegt að horfa á þetta saman og það er ein af ástæðunum fyrir því að ég er á nefndarálitinu þó að ég hafi á því fyrirvara. Fyrirvarinn snýr að öðrum þáttum. Fyrirvarinn snýr að því stjórnsýslulega séð hvort við þurfum sérstaka stjórnsýslustofnun eða ekki. En inn í þetta, vegna þess að þetta blandast inn í kerfisáætlun, er talað um rafstrengina, að þessi kostnaðarmörk eigi þó ekki við og ákveðnir kaflar réttlæti dýrari kostinn. Í fyrsta lagi ef línuleið er innan skilgreinds þéttbýlis, í öðru lagi ef línuleið er innan friðlands sem verndað er sökum sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga um náttúruvernd, í þriðja lagi ef línuleið er við flugvöll þar sem sýnt er að loftlína geti haft áhrif á flugöryggi, í fjórða lagi ef línuleið er innan þjóðgarðs og í fimmta lagi ef línuleið er innan friðlands sem er verndað af öðrum sökum en sérstaks landslags, samanber 53. gr. laga um náttúruvernd.

Meiri hlutinn bætti svo við varðandi flugvelli, telur að þetta eigi líka við um flugöryggi og þar með að flugöryggistæki, svo sem stefnuvitar og ratsjár, falli þar inn. Þetta stækkar til dæmis mjög svæðið sem mikið hefur verið talað um, þ.e. við enda flugbrautarinnar á Akureyri. Þar er stefnuviti sem kemur út úr hinum hefðbundna fluggeira sem er annars staðar. Og með því að taka þetta þarna inn þá er það svæði stækkað mjög mikið þar sem ekki kemur til greina að leggja loftlínu og verður að leggja jarðstreng og skiptir þá engu máli hver kostnaðurinn er.

Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að horfa á þetta í samhengi. Tillaga til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína er mjög merkilegt plagg og kemur vonandi til endurskoðunar innan nokkurra ára þegar við fáum meiri reynslu og sjáum hvernig málin þróast og hvað þarf að bæta í þeim efnum.

Í áliti nefndarinnar er fjallað um nokkra þætti og meðal annars lagt til að stofnuð verði hlutlaus nefnd sem fari í kostnaðarmat og fari í gegnum þetta og hagsmunaaðilar eigi aðild að þeirri nefnd. Við höfum fengið inn í nefndina skoðanir manna og himinn og haf er á milli sjónarmiða sem hafa komið fram. Landsnet hefur sagt á fundum nefndarinnar að þeim sé alveg sama hvort strengur er lagður, ef það er hægt út af flutningsgetu, eða loftlína. Alþingi eða stjórnvöld verði að taka þá ákvörðun. Ef fara eigi í frekari jarðstrengjalagningar, sem hefur hækkun í för með sér, sé það Alþingis, stjórnvalda, að taka þá ákvörðun vegna þess að það kunni að fara út í verðlag á raforku. Það er kannski hárrétt, það er ekkert hægt að leggja það á fyrirtækið miðað við þau lög sem fyrirtækið vinnur eftir.

Aftur að því frumvarpi sem hér er rætt núna, þó að ég hafi tekið hliðarspor með því að vitna í þessa þingsályktun sem er nauðsynlegt að hafa í huga. Þó að ég hafi hlustað hér í dag á nokkur varnaðarorð og athugasemdir sem hafa komið fram, að þetta sé ekki nógu vel gert, það kann að vera, tel ég, eins og kom fram hjá einum ræðumanni við 1. umr. þessa máls, að ekki sé seinna vænna að koma fram með þetta þrátt fyrir agnúa sem eru á því.

Sú tilskipun sem hér er þá sett inn tekur á ýmsu, finnst mér, sem hér hefur verið rætt. Til dæmis var fjallað um hvert ætti að kæra málið, hvert væri hægt að vísa ágreiningi. Það er beinlínis sagt hér að úrskurðurinn sé kæranlegur — hvar var þetta nú í þessum gögnum öllum — til úrskurðarnefndar raforkumála samkvæmt raforkulögum frá 2003, þar er það sett inn. Jæja, það kann að vera að það liggi í nefndarálitinu um raflínur í jörð, en nóg með það. Þetta er kæranlegt til þeirrar nefndar. Úrskurður þeirrar nefndar — sem á að gæta allra hagsmuna og fara í gegnum öll mál, hún er ekkert bara úrskurðarnefnd raforkufyrirtækja, hún á líka að gæta að öllum öðrum almannahagsmunum og því sem landverndarsamtök og almenningur hefur um málið segja — er kæranlegur til dómstóla.

Mér er engin launung í því að ég spurði oft gesti á fundum nefndarinnar hvort við ættum frekar að hafa allsherjarúrskurðarnefnd sem hægt væri að kæra til, sem fellir þá endanlega niðurstöðu um ágreining sem kann að verða út af þessari kerfisáætlun. Mér fannst, eftir á að hyggja, að flestallir andmæltu því sem þar kom inn og vildu frekar hafa þessa úrskurðarnefnd og svo dómstólaleiðina. Ég taldi með öðrum orðum að þetta ætti ekki að fara til dómstóla. Dómstólar hafa nóg með önnur mál að gera sem eiga sannarlega hvergi annars staðar heima en hjá dómstólum þó að þeir séu nú ekki að fella dóma um það hvar raforkulína eigi að liggja eða hvort lína eigi að vera í lofti eða jörð. En ekki var vilji fyrir því og það er einn af þeim fyrirvörum sem ég hef um þetta mál. En í frumvarpinu sjálfu, ef menn eru ekki bara að tala um nefndarálitið, er fjallað um ýmsa þætti, til hvers skuli taka tillit við mat á því sem Orkustofnun á að gera. Það er talið upp hér og eru nú ansi margir aðilar, eins og hér segir:

„Eftirlitsstofnanir skulu ráðfæra sig við alla núverandi og hugsanlega raforkukaupendur varðandi áætlunina.“

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta töluvert metnaðarfullt það sem þarna er sett fram. Ég skil þetta ekki á annan veg en þann að almenningur, landeigendur, sveitarfélög og aðrir geti gert athugasemdir og eftirlitsstofnunin, sem yrði þá væntanlega Orkustofnun, verði að taka tillit til þeirra atriða sem þar eru áður en hún býr til sína kerfisáætlun. Og af því að einhver spurði hér hvort hægt væri að kæra einstaka hluta í kerfisáætlun eða alla áætlunina í heild þá kemur það fram hér að hægt er að kæra einstaka hluta. Það er mjög mikilvægt. Það þýðir með öðrum orðum að sveitarfélag sem vill ekki una úrskurði um kerfisáætlun og vill ekki taka hlutann inn í sitt skipulag getur kært þann hluta til úrskurðarnefndar og síðan til dómstóla og þar er málið endanlegt.

Í þessari tilskipun frá stóra kaupfélaginu úti í Brussel, Evrópusambandinu, er töluvert mikið hugað að almannarétti. En hvort nógu langt er gengið hvað okkur varðar, varðandi okkar litla land, skal ég ekki segja til um en ég tel þó að það sé einnar messu virði að umrætt frumvarp verði samþykkt og fari svona í gegn. Í lokin skal ég kannski segja líka, vegna þess að í lögum um Orkustofnun, sem eru frá 2003 — og ég spyr mig þá að því hvort ef til vill sé komið að því að við þurfum að fara að splitta Orkustofnun upp, líkt og gert var með ýmsar samgöngustofnanir, þar sem framkvæmdahluti ýmissa samgöngustofnana, eins og Vegagerðarinnar, Siglingamálastofnunar, sem þá hét, og Flugmálastjórnar, var settur í sérstaka framkvæmdastofnun en öll stjórnsýslan var tekin í aðra stofnun sem nú heitir Samgöngustofa. Þarna er algjörlega búið að skilja á milli framkvæmdahlutans og stjórnsýsluhlutans.

Í lögum um Orkustofnun, sem eru frá 2003 eins og ég segi, segir:

„Orkustofnun skal enn fremur annast önnur stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.“

Og um hlutverk Orkustofnunar, 1.gr., segir:

„Orkustofnun er sérstök ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra.“

Virðulegi forseti. Ég endurtek það að þessi lög eru frá 2003 og vafalaust hefur það verið ágætt þegar þau voru sett, en ég spyr mig að því — meðal annars út af þeirri umræðu sem hér er komin upp, sem er dálítið vantraust, að mér finnst, gagnvart Orkustofnun — hvort tími sé kominn til að gera breytingar á lögum um Orkustofnun til að koma í veg fyrir þá tortryggni sem þarna kemur fram. Ég veit það ekki, ég ætla ekki að svara því afdráttarlaust en vek aðeins athygli á þeim þætti hvað þetta varðar.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér áðan. Ég skrifa undir nefndaráliti meiri hlutans með fyrirvara. Ég hef reifað nokkuð þá fyrirvara en aðalatriðið er að það kann að vera að þessi umræða leiði til þess að við ættum að taka kerfisáætlun til tíu ára og til þriggja ára, eða hafa hana til tíu ára eða fimm ára eða hvað það á að vera, og taka hana sömu leið með þingsályktun í gegnum þingið eins og gert er með samgönguáætlun.

Ég er gamall sveitarstjórnarmaður, var sveitarstjórnarmaður í 12 ár. Ég get hins vegar ekki annað en verið stuðningsmaður þeirrar greinar í frumvarpinu sem fjallar um skipulagsmál sveitarfélaga, að sveitarfélögum beri, sem eru að mig minnir 74 eða 76, það minnsta með undir 50 íbúa og stærsta er höfuðborgin — þar eru stundum árekstrar á milli, út af fjárhagslegri og faglegri getu sveitarfélaga er erfitt að fara með svona mál í gegn. Maður hlustar á það í fréttum að ekki sé hægt að leggja Blöndulínu til að fullnýta Blönduvirkjun vegna þess að sveitarfélagið Skagafjörður og Akrahreppur, annað eða bæði, sögðu: Þessi lína verður ekki lögð í gegnum okkar sveitarfélag nema öll orkan verði notuð á því svæði.

Virðulegi forseti. Mér finnst slík afstaða sveitarstjórna gera að verkum að maður neyðist til að samþykkja frumvarp af þessu tagi, þessa grein, um að sveitarfélögin skuli taka, eftir allan hinn lögformlega feril, kefisáætlun og setja hana í skipulag, líkt og við gerðum með rammaáætlun, að taka þar skipulag svolítið af og segja sveitarfélögum að þau skuli vinna eftir því sem Alþingi ákveður hvað þetta varðar. Þetta eru mín lokaorð, virðulegur forseti.