144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi það síðasta sem hv. þingmaður nefndi þá er náttúrlega mikill munur á því hvort skipulagsvald sveitarfélaganna takmarkast að einhverju leyti af ákvörðunum sem Alþingi tekur eða hvort skipulagsvald sveitarfélaganna takmarkast, eins og hér á að gera, af áætlun sem framkvæmda- og hagsmunaaðili í landinu undirbýr og fær þá í gegn með samþykki Orkustofnunar og punktur; þar sem engin lýðræðisleg aðkoma Alþingis er að málinu og takmörkuð aðkoma sveitarfélaganna í þeim skilningi að það er bara talað um að hafa skuli samráð við þau. Já, samráð, en það segir ekkert um það hvernig skuli farið með ágreining.

Í fyrsta lagi skil ég vel að hv. þingmaður sé áhugasamur um að koma rafmagni til Siglufjarðar, það kemur ekkert á óvart. En er hv. þingmaður ekki sammála mér um það að það vandamál eigi ekki að leysa með því hugarfari að flutningsgetan sé nóg til þess að hægt sé að gera ráð fyrir álveri? Er hv. þingmaður nokkuð að hugsa um að það þurfi að vera svo sverir kaplar til Siglufjarðar að hægt sé að reisa þar álver ef mönnum dytti það í hug einn góðan veðurdag? Það er vandinn sem við stöndum hér frammi fyrir. Menn bera fyrir sig vandamáli sem snúast um að afhenda nokkur hundruð kílóvött eða fáein megavött út á ákveðnar línur sem liggja út úr meginflutningakerfinu og eiga í raun ekkert skylt við deiluna um stóra háspennta kerfið. 66 kílóvöttin eru á leið í jörð og ekkert vandamál í þeim efnum.

Þrátt fyrir það sem meiri hlutinn hefur sett inn í sitt nefndarálit, um að kerfisáætlun sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun til áfrýjunarnefndar, þá breytir það ekki hinu að taka ber mark á umsögn Skipulagsstofnunar sem vekur athygli á þessari óvissu. Úr því að Skipulagsstofnun telur þetta vera í vafa þá má velta því fyrir sér hvort það sé fullnægjandi lögskýring að meiri hluti nefndarinnar sé þeirrar skoðunar. (Forseti hringir.) Það er engin kæruheimild í frumvarpinu. Af hverju gekk nefndin þá ekki frá því með því að flytja bara breytingartillögur og setja (Forseti hringir.) pósitífa kæruheimild inn þannig að það væri hafið yfir vafa?