144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er sammála hv. þingmanni um það að við erum að tala um lítinn streng en fullnægjandi, og nóg rafmagn til Siglufjarðar og annarra staða en ekki gera ráð fyrir það sverum kapli að hægt sé að byggja álver, þar eða annars staðar.

Ég hef enga trú á því, virðulegi forseti, að menn fari að leggja það svera strengi, sem heitir þá offjárfesting, og hafi voðalega mikið pláss til að flytja svo og svo mikið rafmagn næstu 100 árin eða eitthvað svoleiðis. Það er offjárfesting sem ætti þá að kæra líka ef út í það færi.

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr mig hér um, sem er ágætt, kæruleiðina. Nú skildi ég ekki alveg hvað hv. þingmaður átti við hvað það varðar að hafa pósitífa ákvæðið í lögunum. En í nefndarálitinu stendur, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að samþykkt eða synjun kerfisáætlunar af hálfu Orkustofnunar er kæranleg stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndar raforkumála á grundvelli 1. mgr. 30. gr. raforkulaga. Úrskurðarnefndin er sjálfstæð í sínum störfum, sbr. 10. mgr. sömu greinar, en unnt er að bera úrskurð hennar undir dómstóla innan sex mánaða frá því að aðila var birtur úrskurðurinn. Bæði er unnt að kæra samþykkta kerfisáætlun í heild eða einstaka hluta hennar, t.d. einstaka fyrirhugaða framkvæmd innan hennar og afmarkaða þætti. Jafnframt er ýmist unnt að kæra ákvörðun Orkustofnunar um að samþykkja eða synja samþykki kerfisáætlunar að efni til eða formi.“

Mér þykir gott að geta lesið þetta upp núna vegna þess að ég fann þetta ekki hér áðan.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, þetta er kæruleiðin samkvæmt raforkulögum. Ég man að þegar hv. þingmaður sat í nefndinni þá var dálítill samhljómur hjá okkur um að spyrja út í hvort það ætti að vera einhver allsherjarúrskurðarnefnd í leiðinni, sem var kannski meira út af rafstrengjunum en getur átt við um þetta líka. En hér er það skrifað í lög, raforkulögin, að þetta er kæranlegt. Spurningin er sú, virðulegi forseti: Er þetta ekki nægjanlegt?