144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:28]
Horfa

Frsm. minni hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Áðan var komið inn á það að fyrir lægi að við tækjum upp þriðju raforkutilskipun ESB og það yrði trúlega á þessu ári. Það hefur komið fram að í þeirri tilskipun er sagt að það verði að vera óháður eftirlitsaðili með eins og t.d. kerfisáætlun, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að eftirlitið verði í höndum Orkustofnunar sem fengi aukna ábyrgð. Það mundi ganga þvert á þá löggjöf sem við tökum upp fyrr en síðar þar sem við erum aðilar að EES.

Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvort hún telji ekki rétt að einhver annar aðili, óháður og sjálfstæður aðili, hafi þetta eftirlit með höndum, hvort ekki sé óeðlilegt að eftirlitið sé sett í hendur Orkustofnunar þar sem hún heyrir undir ráðherra og starfsmenn raforkueftirlitsins sem er hjá Orkustofnun heyra undir orkumálastjóra, hvort þetta stangist ekki á.

Síðan talaði hv. þingmaður um landsskipulag. Telur hv. þingmaður ekki að það eitt og sér að þingsályktunartillaga um landsskipulagsstefnu er væntanleg og liggur fyrir innan tíðar réttlæti að við bíðum með að afgreiða kerfisáætlun hér á Alþingi og skoðum það betur þar til sú mikilvæga (Forseti hringir.) stefna liggur fyrir?