144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:30]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka andsvarið. Varðandi raforkutilskipun ESB þá get ég tekið undir að það er óheppilegt, eins og uppleggið er hér, að eftirlitið sé í höndum þess sama og fer með leyfisveitingar. Það er ekki út af því að ég vantreysti starfsmönnum Orkustofnunar á neinn hátt, en þetta er óþægileg og óheppileg staða sem þeir eru settir í. Það þarf að vera hafið yfir allan vafa hvernig þessi mál eru afgreidd.

Landsskipulagsstefna er væntanleg og ég hafði alltaf séð þetta fyrir mér saman, af því að við vinnum á öðrum sviðum að ýmiss konar uppbyggingu eftir heildarplani, og ég tek undir með þingmanninum að við ættum að gera þetta samhliða. Kerfisáætlun þarf að koma samhliða landsskipulagi því að við þurfum að vita t.d. hver stefnan er um aðalatriðið: Hvar eiga línurnar að liggja? Það er mikið atriði. Og svo setjum við auðvitað þá mælistiku sem búið er að vinna og er ágæt til slíkra nota á kostnaðinn eftir línuleiðum sem eru ákveðnar á pólitískan hátt og með aðkomu fagaðila.