144. löggjafarþing — 69. fundur,  24. feb. 2015.

raforkulög.

305. mál
[17:34]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka spurningarnar. Varðandi fyrra atriðið, hvor lögin gangi lengra og hvert við förum þá með stjórnsýsluna og dómskerfið, eru það auðvitað áleitnar spurningar sem hv. þingmaður veltir upp. Ég hef ekki svörin við þeim og það er það vonda við þetta, við höfum þau ekki fyrir fram. Þess vegna væri gott að sýna fyrirhyggju og gera þetta samhliða. Þingmaðurinn veltir því upp hver staðan væri ef niðurstaða landsskipulags væri að fara ekki með línur yfir miðhálendið eða raska því ekki frekar en komin væri lína yfir Sprengisand, og þá erum við auðvitað komin í bobba.

Við höfum rætt í nefndinni hvaða málamiðlun er hægt að gera þar varðandi jarðstrengi og annað. Nú liggur fyrir að ekki er hægt að fara með lengri jarðstreng en um 50 km yfir Sprengisand, sem eru auðvitað mikil vonbrigði, en það er tæknilegs eðlis. En ef það kemur betri hringtenging er hægt að lengja þá leið upp í 70–100 km, af því að þá vinna flutningskerfin saman og spennan er ekki jafn mikil. Ég held því að við þurfum að skoða þetta í miklu, miklu betra samhengi hvort við annað.

Svo tek ég undir það sem þingmaðurinn nefndi um samgönguáætlun sem dæmi. Við erum vön því að vinna með hana á fjögurra ára fresti því auðvitað þurfum við að breyta og bæta, eðli málsins samkvæmt. Og það væri gott ef kerfisáætlun væri (Forseti hringir.) svoleiðis líka.